FME gagnrýnir Sparisjóð Þingeyinga

14.02.2016 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjármálaeftirlitið telur að verklag Sparisjóðs Þingeyinga við útlán sé ekki í samræmi við lög og gerir athugasemdir við að sjóðurinn hafi veitt tvö lán án trygginga. Stjórnarformaður sjóðsins segir að unnið sé í samræmi við lög og tilmæli eftirlitsins gangi að sumu leyti lengra en reglur gera ráð fyrir.

 

Fjármálaeftirlitið gerir ýmsar athugasemdir í gagnsæistilkynningu, sem er afrakstur athugunar á útlánum sjóðsins sem hófst fyrir ári. Kannaðar voru skuldbindingar upp á rúmar 1.560 milljónir króna, sem er 44,8% af útlánum og ábyrgðum sjóðsins.

Helstu niðurstöðurnar voru að verklag sjóðsins væri ekki í samræmi við lög. Auka þyrfti framlög á afskriftareikning og stjórnin hefði ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu eða fjallað reglulega um vanskil og áhættustýringu. Þá hafi sjóðurinn í tveimur tilvikum veitt lán án trygginga og í öðrum tveimur tilvikum er gerð athugasemd við vinnubrögð og verklag við lánveitingu.

Ari Teitsson stjórnarformaður Sparisjóðs Þingeyinga vildi ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins en vísaði í yfirlýsingu sem hann sendi fyrir hönd stjórnar. Þar er harmaður sá áfellisdómur sem Fjármálaeftirlitið hefur fellt yfir sparisjóðnum, eins og það er orðað. Sjóðurinn leitist við í öllum sínum störfum að vinna í samræmi við gildandi lög og reglur í einu og öllu. Fyrirmæli í reglum eftirlitsins um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti séu matskennd, ekki mælanleg.

Um eftirlit stjórnar með áhættustýringu segir Ari að í endanlegri skýrslu eftirlitsins komi fram að áhættustýringin standist þær kröfur sem til starfseminnar eru gerðar. Þá hafi sjóðurinn óskað eftir nánari skýringum á athugasemdum eftirlitsins um afskriftarframlög sjóðsins. Ætla megi að byggt sé á órökstuddum viðmiðum eftirlitsins, sem geri lánafyrirgreiðslur til atvinnustarfsemi á landsbyggðinni nær útilokaða.

Hvað varðar lán án trygginga segir Ari að þar sé um að ræða eldri lánveitingar með allt að tíu ára sögu.

Ari segir að sjóðurinn hyggist í öllum tilvikum verða við tilmælum Fjármálaeftirlitsins, þó að hann telji í ákveðnum tilfellum gengið lengra en reglur gera ráð fyrir.

Að lokum segir Ari í yfirlýsingunni að sparisjóðurinn hafi verið eitt fárra fjármálafyrirtækja sem komst í gegnum bankahrunið án aðstoðar, sem ef til vill segi meira um sjóðinn en gagnsæistilkynning Fjármálaeftirlitsins.

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV