Fluttu sextán kindur sjóleiðina heim

18.01.2016 - 18:47
Bændur og björgunarsveitarmenn úr Grýtubakkahreppi sóttu í gær 16 kindur í eyðivík austur af Eyjafirði og fluttu þær sjóleiðina heim. Kindurnar voru vel á sig komnar en þær hafa gengið úti í allan vetur.

Það voru 13 manns, bændur úr Höfðahverfi og björgunarsveitarmenn frá Grenivík, sem lögðu af stað í gærmorgun á vélsleðum og tveimur bátum. Ferðinni var heitið í Keflavík, eina af eyðivíkunum á skaganum austan við Eyjafjörð. Þar upp af liggur Keflavíkurdalur og þar var vitað um 16 kindur.

Þurftu að elta kindur upp í kletta
Þórarinn Pétursson, bóndi á Grund í Höfðahverfi, segir þá hafa náð 12 kindum fljótlega. “Við eyddum síðan töluverðum tíma í að leita að fjórum kindum sem höfðu greinilega forðað sér og voru komnar upp í kletta. Það var svolítið bölvað að ná þeim, en það hafðist fyrir rest.“

Margt þarf að ganga upp
Eftir að búið var að koma kindunum niður í fjöru voru þær ferjaðar á gúmmíbát út í trillu sem flutti þær til Grenivíkur. Þórarinn segir að til að svona verkefni takist verði margt að ganga upp. Það þurfi að vera gott í sjóinn og vanur mannskapur.

Þarf að handleika hverja kind
„Sérstaklega þegar féð er svona margt. Því það þarf að handleika hverja einustu kind, binda á þeim fætur og halda á þeim. Það eru því mörg handtökin við hverja kind til þess að koma þeim heim.“ 

 

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV