Flutningabíll fór út af veginum

06.01.2016 - 15:02
Mynd með færslu
 Mynd: Helgi Seljan  -  Mynd
Flutningabíll með tengivagn fór út af veginum nálægt Erpsstöðum í Dölum rétt eftir hádegi í dag. Þyrla landhelgisgæslunnar var kölluð út og lenti við slysstað fyrir skömmu. Veginum hefur verið lokað.

Lögreglan sagði í samtali við fréttastofu að mikill mannskapur, bæði lögregla og slökkvilið hafi haldið á vettvang. Leiðindaveður er á þessum slóðum og taldi lögregla í samtali við fréttastofu að bíllinn hafi fokið af veginum með þessum afleiðingum. Lögreglan gat ekki veitt upplýsingar um líðan ökumannsins.

Vegagerðin lokaði veginum og er vegfarendum er bent á að fara hjáleið um veg 585, Hlíðarveg, við Fellsenda að vestanverðu en Árblik að sunnanverðu. Starfsmenn Vegagerðarinnar standa vörð um bæði gatnamótin.

Uppfært kl. 16:00: Þyrla landhelgisgæslunnar lenti með ökumanninn í Reykjavík fyrir fáeinum mínútum. Ekki er vitað hversu alvarleg meiðsli hans eru en hann var einn á ferð. Um tvær klukkustundir tók að ná manninum úr bílnum.

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV