Flutningabíll fauk út af veginum við Akureyri

16.02.2016 - 06:24
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Flutningabíll með 40 feta gám á tengivagni fauk út af þjóðvegi 1 við Hlíðabæ rétt norðan bæjarmarka Akureyrar á fimmta tímanum í nótt. Bíllinn valt á hliðina út í vegöxlina, en mjúkt var undir. Ökumaður slasaðist ekki. Lögregla á Akureyri segir veður sæmilegt í bænum, þótt það hreyfi vind, en mun hvassara litlu utar í firðinum. Þar er vindur þvert á þjóðveginn, og nokkuð um bálhvassar hviður. Flutningabílstjórinn tjáði lögreglu að ein slík hefði hreinlega þeytt bílnum á hliðina á örskotsstundu.

Reikna má með að vindur sæki heldur í sig veðrið en hitt á næstu klukkustundum þar nyrðra.  Á Austurlandi  er mesti veðurofsinn að baki, en þar fór mesti jafnaðarvindur í 50 metra á sekúndu á Gagnheiði.