Flugumferðarþjónusta og öryggi óskert

01.02.2016 - 23:15
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már  -  RÚV
Isavia vísar á bug ásökunum um að ekki sé gætt að öryggismálum á Akureyrarflugvelli og hafnar því alfarið að sparnaðarsjónarmið ráði för. Í tilkynningu frá Isavia kemur fram að fullyrðingar um að Isavia hafi í hyggju að skerða flugumferðarþjónustu og öryggisstig Akureyrarflugvallar eigi ekki við rök að styðjast.

Tilefnið er bréf Steindórs Kristins Jónssonar, flugrekstrarstjóra og flugstjóra hjá Norlandair, og Þorkels Ásgeirs Jóhannssonar, þjálfunarstjóra hjá Mýflugi þar sem þeir gagnrýna Isavia harðlega fyrir breytingar á flugumferðarþjónustu við Akureyrarflugvöll. Þeir segja breytingarnar verða til að skerða öryggi á flugvellinum.

Isavia segir að vegna mannabreytinga sé fyrirséð að gera þurfi breytingar á vöktum, vegna þess að ekki sé hægt að reka þjónustu allan sólarhringinn alla daga ársins með þremur starfsmönnum. Ákveðið hafi verið að halda áfram flugumferðarstjórn á daginn en bjóða fulgupplýsingaþjónustu á kvöldin og sem bakvakt. Flugumferðarstjóri verði auk þess á bakvakt til að sinna ratsjárþjónustu ef aðstæður krefjist.

Í tikynningu frá Isavia segir að allir áætlunarflugvellir á Íslandi utan Akureyrarflugvallar, Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvallar séu reknir með flugupplýsingaþjónustu í flugturni en ekki flugumferðarstjórn. Þetta sé því fyrirkomulag sem sé þekkt víða um land og flugmenn og flugfélög þekki. Þessi ráðstöfun flugupplýsingaþjónustu yfir rólegasta tíma sólarhringsins á Akureyrarflugvelli hinsvegar einungis tímabundin.  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV