Flugfarmiðakaup boðin út í febrúar

21.01.2016 - 23:50
Mynd með færslu
Fjármálaráðuneytið.  Mynd: RÚV
Útboð vegna farmiðakaupa Stjórnarráðsins verður auglýst í febrúar næstkomandi. Í tilkynningu á vef fjármála-og efnahagsráðuneytisins kemur fram að undirbúningur útboðsins hafi staðið undanfarin misseri. Markmiðið er að farmiðakaupin verði sem hagkvæmust og hefur verið ákveðið að til hagræðingar fari öll farmiðakaup ráðuneyta fram hjá Rekstrarfélagi stjórnarráðsins.

Fjármála- og efnahagráðuneytið hefur undirbúið útboðið í samstarfi við önnur ráðuneyti, Rekstrarfélag stjórnarráðsins, Fjársýslu ríkisins og Ríkiskaup. Ráðuneytið áformar að þegar búið verður að bjóða út flugfarmiðakaup stjórnarráðsins verði farið í vinnu við sambærilega útfærslu fyrir stofnanir ríkisins.

Félag atvinnurekenda ítrekaði í bréfi sem það sendi fjármálaráðuneytinu bréf í fyrradag fyrirspurn frá því fyrir tveimur mánuðum um hvað útboðinu liði. „Við fögnum því að fá loksins einhver viðbrögð úr ráðuneytinu. Það er fagnaðarefni að hreyfing sé að komast á málið eftir meira en þriggja ára brot ríkisins á lögum um opinber innkaup,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í frétt á vefsíðu þess.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV