Flugbannssvæði í 120 sjómílur

21.05.2011 - 20:57
Mynd með færslu
Flugbannssvæði hefur verið sett upp 120 sjómílur í allar áttir frá eldstöðinni í Grímsvötnum meðan kannað er hver áhrif gosið hefur. Mökkurinn er kominn upp í þotuhæð og því hafa verið gerðar áætlanir um að þær flugvélar sem fara um íslenska flugstjórnarsvæðið fljúgi sunnar í nótt og á morgun en þær gerðu í hvað.

Það vill til happs nú að lítil flugumferð er um flugstjórnarsvæði Íslands og því hefur gosið haft lítil áhrif á flug enn sem komið er. Þá segir sagan að gos á þessum slóðum hafi ekki haft mikil áhrif á flug. Óvíst er þó hvernig gosið þróast og því lítið hægt að fullyrða um það að svo stöddu.

Flugvél frá Flugfélaginu Erni fór í loftið upp úr klukkan átta og flaug að gosstöðvunum. Þar um borð eru jarðeðlisfræðingarnir Steinunn Jakobsdóttir og Björn Oddsson auk jarðfræðinga frá Veðurstofunni og Háskóla Íslands. Þar verður gosið kannað og er gert ráð fyrir að flugvélin lendi í Reykjavík aftur um eða upp úr klukkan tíu.