Flugbann á rafhlöður vegna eldhættu

23.02.2016 - 05:45
epa04316924 Boeing's 787 Dreamliner at the Farnborough AIrshow in Farnborough, Hampshire, south east England, 15 July 2014. Boeing (NYSE: BA) and CIT Group Inc. (NYSE: CIT) global leader in transportation finance, announced on 15 July 2014 that CIT
 Mynd: EPA
Stofnun Sameinuðu þjóðanna um flugsamgöngur samþykkti í gær að banna farmflutning á liþíum-rafhlöðum í farþegaflugi vegna mögulegrar eldhættu. Bannið tekur gildi 1. apríl og verður í gildi til ársins 2018 þegar nýir pökkunarstaðlar taka gildi. Farþegar og áhöfn mega hafa fartölvur í handfarangri eftir sem áður.

Bannið er ekki bindandi en flest ríki fylgja stöðlum stofnunarinnar. Flugfélög og flugmannasamtök báðu um bannið af öryggisástæðum. Fjölmörg flugfélög hafa þegar hætt að flytja rafhlöður með farþegaflugi. Tvö alvarleg atvik urðu í Boeing 787 flugvélum í janúar 2013 þegar liþíum-rafhlöður ofhitnuðu. Annað atvikið gerðist um borð í flugvél sem var á flugvelli í Boston, en hitt atvikið gerðist yfir Japan og varð flugvélin að nauðlenda.

Fyrr í mánuðinum varaði bandaríska flugumferðarstofnunin við hættunni á stórslysi ef liþíum-rafhlöður myndu springa í flutningarými, því eldvarnarkerfi myndu ekki ráða við eldsvoðann í kjölfarið.
Liþíum-rafhlöður eru notaðar í ýmis raftæki, til dæmis fartölvur og rafbíla.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV