Flúði grimmilegar aðstæður í Norður-Kóreu

Bókmenntir
 · 
Með lífið að veði
 · 
Morgunvaktin
 · 
Yeon-mi Park
 · 
Menningarefni

Flúði grimmilegar aðstæður í Norður-Kóreu

Bókmenntir
 · 
Með lífið að veði
 · 
Morgunvaktin
 · 
Yeon-mi Park
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
15.08.2017 - 15:32.Davíð Kjartan Gestsson.Morgunvaktin
Nýverið kom út á íslensku bókin Með lífið að veði, eftir Yeonmi Park. Bókin inniheldur endurminningar 23 ára gamallar konu sem barnung flúði frá Norður-Kóreu ásamt móður sinni. Hún hefur sagst vilja varpa ljósi á myrkasta stað á jarðríki með útgáfu bókarinnar.

Með lífið að veði kom fyrst út 2015 á ensku og hefur verið þýdd á tæplega 20 tungumál. Útgefandi bókarinnar hér á landi, Jónas Sigurgeirsson, segir að þetta sé samtímasaga ungrar konu sem hefur upplifað miklar mannraunir.

Fann matarlyktina koma frá Kína

Á fyrstu æviárum Yeonmi, 1994-1998 varð mikil hungursneyð í Norður Kóreu samhliða falli Sovétríkjanna. Á þessum tíma sá faðir hennar fyrir fjölskyldunni með svartamarkaðsbraski, segir Jónas. Fjölskyldan hafði tilheyrt miðstétt en eftir að faðir hennar varð handtekinn féll hún niður í lægstu þrep þjóðfélagsins.

„Það er nú þannig að þegar að vantar mat breytist eðli fólks, mennskan hverfur. Yeonmi lýsir því í bókinni þegar hún, glorsoltin, fann matarlyktina koma yfir ána frá Kína. Það var einmitt vegna hungursins að hún og móðir hennar ákveða að flýja til Kína.“

Framtíðin var vægt til orða tekið ekki björt fyrir mæðgurnar í Norður-Kóreu og þær hafi jafnvel verið tilbúnar til að deyja segir Jónas.

„Þær nutu aðstoðar fólks við að flýja yfir ána, en þær áttuðu sig ekki á því að það var ekki að gera þeim greiða, heldur voru þau hluti af mansalshring.“ Þær voru því seldar um leið í þrældóm þegar yfir ána var komið. Mæðgurnar náðu að flýja frá Kína tveimur árum síðar, við illan leik, og komust til Suður Kóreu.

Í dag stundar Yeonmi hagfræðinám við Columbia háskóla í New York. Þrátt fyrir fyrrlýstar raunir lítur hún ekki á sig sem fórnarlamb. „Það er mjög ríkt í henni að hún telur sig hafa lifað af; hún er ein af þeim sem slapp,“ segir Jónas. „Hún hefur sagt að þrátt fyrir allar þær hörmungar sem hún gekk í gegnum, þá myndi hún vilja ganga í gegnum þær allar aftur til að öðlast það frelsi sem hún fékk.“

Erindi sem hún flutti á leiðtogafundi í Dublin 2014 vakti mikla athygli. Þar lýsti hún lífi sínu í Norður-Kóreu og flótta þaðan.

Jónas segir að það blasi við að hún yrði dæmd sem föðurlandssvikari ef hún sneri aftur til Norður Kóreu. 

Rætt varð við útgefandann Jónas Sigurgeirsson í Morgunvaktinni á Rás 1, um bókina Með lífið að veði eftir Yeonmi Park og ástandið í Norður-Kóreu.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Norðurkóreskum smásögum smyglað úr landi

Bókmenntir

Stöðug innræting limlestir hugsun og samfélög