Flóttamenn fá vinnu í Mariagerfjord

18.01.2016 - 23:00
Mynd með færslu
 Mynd: TV2
Aðeins fjórir af hverjum tíu flóttamönnum í Danmörku eru komnir með fasta vinnu eftir tíu ára dvöl í landinu. Í bænum Mariagerfjord á Jótlandi er hlutfallið miklu hærra enda hefur sveitarfélagið skýra stefnu í þessum efnum.

Þátttaka í atvinnulífi er mikilvæg forsenda aðlögunar að samfélaginu og þess vegna þykir mörgum Dönum það áhyggjuefni að sextíu prósent flóttamanna eru ekki í fastri vinnu eftir að hafa búið í landinu í áratug. Þetta er ekki hins vegar ekki vandamál í Mariagerfjord. Atvinnuþátttaka flóttamanna er óvíða meiri í landinu.

Vandinn er sem sagt ekki sá að flóttamennirnir fáist ekki til að vinna heldur að sveitarfélögin standa ekki alltaf rétt að undirbúningi að komu þeirra á vinnumarkaðinn. Lars Larsen, ráðgjafi hjá LG Insight, segir að oft sé byrjað á að leysa ýmis félagsleg vandamál, þá snúi menn sér að uppfræðslunni og loks eftir hálft til eitt ár sé loksins komið að því að leita eftir atvinnu. Þá sé það oft orðið of seint.

Lars segir að í þeim sveitarfélögum sé atvinnuástand meðal flóttafólksins best þar sem aðlögunin hefjist þegar í stað með því að koma fólkinu út í atvinnulífið og taka samhliða til við uppfræðslu þess. Ekki vanti að fólkið sé harðduglegt til vinnu og vinnuframlag þess sé þegið með þökkum.

Mynd með færslu
Sveinn H. Guðmarsson
Fréttastofa RÚV