Flokkarnir færi þjóðinni meiri völd

Það er þung undiralda í vestrænum stjórnmálum um þessar mundir. Össur Skarphéðinsson, alþingismaður og fyrrverandi utanríkisráðherra, orðaði þetta þannig á Morgunvaktinni á Rás 1 að fólki finnist það hafa tapað valdi, ráði ekki eigin örlögum. Þetta birtist í hræringum víða.

Hér heima lifi gamla flokkakerfið ekki af nema að það framselji hluta af valdi sínu til þjóðarinnar, færi þjóðinni rétt á því að knýja fram þjóðaratkvæði án atbeina Alþingis. Um þetta snúist næstu alþingiskosningar. „Hér á Íslandi speglast þetta í því að hið hefðbundna flokkakerfi er meira eða minna í rúst, ekki bara minn flokkur, Samfylkingin, heldur líka Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, og með vissum hætti Vinstri grænir. Flokkarnir sem einhvern tímann hafa farið með völd á síðustu árum eru mjög illa staddir“. Össur segir að ástæðan sé augljóslega sú að þjóðin telji að flokkarnir hafi brugðist í aðdraganda bankahrunsins, sem leiddi hörmungar yfir marga.

En hvað er að gerast núna? Össur segir að allt stefni í sömu átt og fyrir árið 2008. Forstjórarnir heimti ofurlaun og vildarhygli hafi birst í sölu á hlut í Símanum og í Borgunarmálinu. „Menn sjá þessi sjúkdómseinkenni og hugsa: Þessir flokkar sem tilheyra hinu hefðbundna flokkakerfi réðu ekki við þetta fyrir árið 2008, af hverju ættum við að styðja þá núna“?

Össur Skarphéðinsson segir að þetta sé meginástæðan fyrir góðu gengi Pírata, sem hafi ekki enn þurft að bera ábyrgð en allir telji vel meinandi. „Það er komið fljót vantrausts milli hefðbundinna stjórnmála og fólksins í landinu. Ef flokkakerfið ætlar að lifa, þá gerist það ekki öðruvísi en með því að það framselji eitthvað af valdi sínu til fólksins. Þess vegna segi ég: Næstu alþingiskosningar munu ekki snúast um efnahagsmál, heldur um framsal á valdi. Um möguleikann á því að breyta stjórnarskránni og gefa fólkinu rétt til að krefjast þjóðaratkvæðis um þá hluti sem það vill – en ekki bara um það sem þingið vill“.

Össur Skarphéðinsson segist allan sinn feril hafa viljað greiða götu þjóðaratkvæðagreiðslna, auka beint lýðræði. Hann gengst við því að eiga samleið með Pírötum hvað þetta varðar og vill að eftir næstu kosningar verði mynduð ríkisstjórn sem færi fólkinu þennan rétt. „Ef flokkakerfið vill lifa verður það að afsala sér valdi að hluta til og gefa fólkinu í landinu tækifæri til að geta sjálft reist mál til þjóðaratkvæðis, án þess endilega að það mál komi fyrst fram á þinginu“.

Össur Skarphéðinsson viðurkennir að flokkar séu ekki heilagar stofnanir, enda sjálfur sýnt að hann sé reiðubúinn til að taka þátt í breytingum. Hann telur að það væri skynsamlegt af Samfylkingunni og Vinstri grænum að reyna að mynda samstöðu um það að ef þessir flokkar komist í aðstöðu til þess við myndun nýrrar ríkisstjórnar að berjast fyrir framgangi tiltekinna mála. Össur nefnir stóraukna fjármuni í heilsugæsluna, málstað aldraðra og öryrkja – en fyrst og síðast það að færa fólkinu réttinn til að ákveða eigin örlög með þjóðaratkvæði og taka inn í stjórnarskrána ákvæði sem tryggir sameign landsmanna á þjóðarauðlindinni.

Össuri sýnist að stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra sé að falla á tíma en hugsanlega megi greiða atkvæði um tillögur nefndarinnar meðfram alþingiskosningum. Hann telur að það hafi skort vilja til breytinga og nú séu málin að þróast þannig að sjálfar kosningarnar muni snúast um stjórnarskrána, um að færa þjóðinni málskotsrétt og tryggja eign hennar á auðlindum. „Ef þetta er það sem þjóðin vill þá kýs hún það“, segir Össur Skarphéðinsson. Hann telur ekki raunhæfar þær hugmyndir Birgittu Jónsdóttur og fleiri Pírata um að það taki stuttan tíma að ganga frá tillögum um nýja stjórnarskrá, og kjósa megi fljótt að nýju til þings, en vel megi gera það þegar kjörtímabilið sé hálfnað. „Það eru byltingartímar framundan“, segir hann. Össur telur að Píratar muni halda miklu fylgi og einnig gæti Viðreisn haft áhrif á stöðu Sjálfstæðisflokksins, ef hún haldi vel á sínum spilum. Sjálfur segist hann í miklu stuði og jafn áhugasamur og fyrr um lífið í pólitíkinni. 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi