Flestir ferðamenn frá Bretlandi

09.08.2012 - 19:10
Mynd með færslu
Það eru helst Bretar sem ferðast til Íslands í ár en komum þeirra hefur fjölgað um tæp fjörutíu prósent frá því í fyrra. Kínverskir ferðamenn sækja einnig í sig verðið og hefur komum þeirra hingað fjölgað um helming á einu ári.

Flestir erlendir ferðamenn sem koma til Íslands geta hugsað sér að koma hingað aftur - jafnvel þótt ferðamaður greiði að meðaltali tæpar 90.000 krónur fyrir farmiða til landsins.

Ísland hefur svo sannarlega náð að stimpla sig inn á landakortið sem ört vaxandi og vinsæll ferðamannastaður. Komum til landsins fjölgar stig af stigi milli ára og árlega er slegið met í þeim efnum.

Bretar eru fjölmennastir þeirra sem koma hingað flugleiðis. Tæplega 54 þúsund Bretar hafa farið um Leifsstöð það sem af er árinu sem er tæplega 40% fleiri en á sama tímabili í fyrra. Mjög svipaður fjöldi Bandaríkjamanna hefur heimsótt landið á árinu og fjölgar þeim um fjórðung frá fyrra ári.

Ferðamönnum frá Asíu fjölgar hratt

Athygli vekur þegar rýnt er í þessar tölur Ferðamálastofu að komum asískra ferðamanna fjölgar hlutfallslega mjög mikið milli ára þótt enn sé hópurinn ekki stór. Til dæmis komu rétt rúmlega sjö þúsund Kínverjar hingað í ár. Rúmlega helmingi fleiri en í fyrra. Svipaða þróun má sjá frá Japan.

Meðalmaðurinn sem ferðast til Íslands dvelur hér 10 nætur en Ferðamálastofa kannaði í fyrra ferðatilhögun og reynslu erlendra ferðamanna af Íslandsför.

Sé að marka könnunina er það náttúran í langflestum tilfellum sem er kveikjan að ferðinni og minnistæðust í kjölfar heimsóknarinnar. Næst á eftir fylgdi Bláa lónið og loks þjóðin og gestrisni hennar.

Ferðamennirnir virtust ánægðir með för sína til landsins, að minnsta kosti ætluðu um 80% svarenda að koma aftur. Það ætla þeir að gera þótt flugmiðinn kosti nokkra upphæð en ferðamennirnir greiddu að jafnaði rúmar 83 þúsund krónur fyrir flug- eða ferjumiða til og frá landinu samkvæmt tölum Hagstofunar.