Fleiri fjölónæmar lekandasýkingar áhyggjuefni

15.02.2016 - 18:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tilfellum fjölónæmra lekandasýkinga fer fjölgandi á Íslandi, en sjúkdómurinn getur valdið ófrjósemi og alvarlegum sýkingum. Yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans segir að þetta sé mikið áhyggjuefni; hefðbundin sýklalyf dugi ekki til og því smiti fólk með sjúkdóminn lengur en ella.

Lekandi er alvarlegur kynsjúkdómur og getur valdið ófrjósemi hjá konum og körlum. Þá getur sjúkdómurinn sömuleiðis valdið sýkingu og bólgu í liðum, augnsýkingum og í verstu tilvikum sýkingu í eggjaleiðurum og kviðarholi.

Tilfellum lekanda hefur fjölgað á Íslandi frá því árið 2005, þegar nítján greindust með sjúkdóminn. Hrunárið 2008 greindust 59 með lekanda, sem er met, en síðan þá hafa greinst 32 tilfelli á ári að meðaltali.  Í fyrra voru þau 38 talsins.

Karl G. Kristinsson, prófessor í sýklafræði og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans segir mikið áhyggjuefni að hér á landi fjölgi tilfellum þar sem fólk greinist með mjög ónæma lekandasýkla.

„Það getur þýtt að meðferð takist ekki, allavega ekki í fyrstu skiptin, séu notuð þessi hefðbundnu lyf. Þau virka ekki og þá heldur viðkomandi áfram að vera sýktur og getur dreift henni og læknast ekki. Vandinn er sá að það er að aukast svo mikið ónæmið að þeir eru að verða fjölónæmir líka, eins og E-coli bakterían,“ segir Karl í samtali við fréttastofu.

Hann segir að trúlega megi rekja fjölgun tilfella hérlendis til illviðráðanlegri lekanda baktería, sem hefðbundin sýklalyf vinni ekki á. Því smiti fólk með sjúkdóminn, sem getur í sumum tilfellum verið einkennalaus, lengur. „Þetta er mikið áhyggjuefni varðandi lekandan, því hann getur valdið alvarlegum sýkingum.“

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur skorið upp herör gegn enn svæsnari lekanda bakteríum, sem eru ónæmar fyrir flestum sýklalyfjum. Slík tilfelli hafa ekki greinst á Íslandi, en það er aðeins tímaspursmál. 

Smokkurinn enn mikið feimnismál

Eina vörnin gegn lekanda, eða klamydíu, sem hvergi er útbreiddari í Evrópu en á Íslandi miðað við höfðatölu, er gamli góði smokkurinn, ja fyrir utan skírlífi auðvitað. En af hverju eru Íslendingar ekki duglegri að nota smokkinn? 

„Af því að hann er dýr, það er lélegt aðgengi að honum og hann er ennþá ótrúlega mikið tabú og mikið feimnismál,“ segir Sigga Dögg, kynfræðingur, í samtali við fréttastofu.

„Ég fæ ennþá foreldra til mín á fyrirlestra sem hafa aldrei keypt smokk og aldrei notað hann og finnst það kjánalegt. Þau fara ekki ein á kassann í Bónus heldur kalla í makann sinn og segja fyrir framan starfsmanninn: „Við erum saman hérna að kaupa smokka.“ Við erum bara ennþá svo kjánaleg með þetta því það er svo mikill kunningsskapur hérna, en það þarf bara að hætta,“ segir Sigga Dögg.

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV