Fimm vilja verða formenn Blindrafélagsins

27.02.2016 - 15:12
Mynd með færslu
 Mynd: 360°  -  ja.is
Fimm bjóða sig fram til formanns í Blindrafélaginu. Klukkan eitt í dag rann út frestur til að skila framboðum. Formaður til næstu tveggja ára verður kosinn á aðalfundi félagsins 19. mars auk stjórnarmanna. Þeir sem bjóða sig fram eru Bergvin Oddsson, sem var settur af sem formaður í haust, Friðgeir Jóhannesson, Sigurður G. Tómasson, Sigþór U. Hallfreðsson og Svavar Guðmundsson.

Þeir Bergvin og Svavar bjóða sig líka fram til stjórnarsetu. Starfandi formaður Halldór Sævar Guðbergsson, féll í gær frá framboði sínu til formennsku og lýsti því yfir að hann vildi stefna að sátt innan félagsins og byði sig því fram til stjórnarsetu en ekki formennsku. Heillavænlegast væri að fá nýjan mann á formannsstól.  Mikil átök hafa verið innan Blindrafélagsins síðustu misseri. Sannleiksnefnd sem skipuð var eftir að Bergvini var vikið af stóli í haust gagnrýndi bæði hann og stjórnina í skýrslu sem birt var nýlega.