Fimm fórust í snjóflóðum í Ölpunum

19.01.2016 - 00:16
epa05109330 An helicopter flies to the site of an avalanche near Valfrejus, France, 18 January 2016. Five members of the French military were killed and four wounded when they were caught in an avalanche near Valfrejus. Eleven people were caught in the
 Mynd: EPA  -  LE DAUPHINE / MAXPPP
Fimm hermenn úr frönsku útlendingahersveitinni létust og sex slösuðust þegar snjóflóð féll þar sem þeir voru við æfingar í frönsku Ölpunum á mánudag. Snjóflóðið varð í nágrenni bæjarins Valfrejus, nærri ítölsku landamærunum, þar sem um 50 manna sveit var við æfingar í 2.200 metra hæð, utan skíðasvæða. Leitarhundar og þyrlusveitir hófu þegar leit. Þeir sem lentu í fljóðinu fundust fljótlega en fimmmenningarnir voru þegar látnir.

Mikil ofankoma hefur verið í þessum hluta Alpanna undanfarið. Í síðustu viku fórust tvö skólabörn og úkraínskur ferðamaður í snjóflóði á þessum slóðum. Kennari barnanna hefur verið ákærður fyrir manndráp, þar sem hann fór með nemendur sína inn á svæði sem lokað var vegna snjóflóðahættu.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV