Fíkniefnalögreglumaður í gæsluvarðhaldi

05.01.2016 - 15:24
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Starfsmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var úrskurðaður í gæsluvarðhald, grunaður um alvarleg brot í starfi, skömmu fyrir áramót, samkvæmt heimildum fréttastofu. Fréttastofa sendi Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara fyrirspurn fyrr í dag þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort lögreglumaður væri til rannsóknar hjá embættinu. „Ég get ekki veitt upplýsingar um þetta málefni að svo stöddu,“ sagði í svari Sigríðar.

Fréttastofu óskaði eftir upplýsingum frá Sigríði um hvort hún gæti staðfest að lögreglumaður sæti í gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsóknina. Ekki hefur borist svar við þeirri fyrirspurn.

Upplýsingar um meint brot mannsins hafa legið á borði lögreglu um nokkurra vikna skeið.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu að hún geti ekki veitt upplýsingar um málefni einstakra starfsmanna. „Hafa ber jafnframt í huga að embætti héraðssaksóknara fer með mál ef um er að ræða ætlað refsivert brot lögreglumanns við framkvæmd starfa hans. LRH, eins og önnur lögregluembætti, kemur upplýsingum um slíkar grunsemdir til þess embættis héraðssaksóknara eða ríkissaksóknara en fjallar ekki um slík mál sjálf. “

Samkvæmt heimildum fréttastofu er þetta ekki maðurinn sem færður var til í starfi í sumar og hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Eftir því sem fréttastofa kemst næst er málið á mjög viðkvæmu stigi og lögreglan verst allra fregna. Fréttatíminn greinir frá því á vefsíðu sinni að maðurinn hefði átt í óeðlilegum samskiptum við brotamenn. 

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV