Festast í Kvennaathvarfinu

04.03.2016 - 20:04
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Hópur kvenna dvelur mun lengur í Kvennaathvarfinu en þær þurfa þar sem þær hafa ekki í önnur hús að venda að sögn framkvæmdastýru athvarfsins. Tregða sé á leigumarkaðnum að leigja þeim og sérstaklega eigi erlendar konur erfitt með að fá húsnæði.

Árlega flýja margar konur heimili sitt vegna ofbeldis og leita skjóls í Kvennaathvarfinu, en í mörgun tilvikum verður dvölin lengri en hún þyrfti að vera.

„Já á hverju ári dvelur hjá okkur talsverður hópur kvenna sem að dvelur miklu lengur en þær ættu að gera í neyðarathvarfi vegna ofbeldis. Sem sagt ofbeldið er ekki lengur stóri vandinn heldur það að þær hafi ekki í nein hús að venda,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.

Leigumarkaðurinn sé flestum erfiður en þessar konur komi með mínusstig á þann markað, ekki sé búið að ganga frá skilnaði þeirra, þær eigi ekki rétt á húsaleigubótum, fjárhagur þeirra sé bágur svo eitthvað sé nefnt og rannsóknir sýni að minni vilji sé til að leigja konum sem komi úr Kvennaathvarfinu.

„Já ýmislegt bendir til að bæði óttist þeir að bág fjárhagsstaða geri það að verkum að konurnar geti ekki staðið undir leigunni og að það fylgi þeim einhver karlkyns vandræði sem að komi þeim í klandur. Helmingur af okkar dvalarkonum eru konur af erlendum uppruna og við heyrum líka að þær eiga erfiðara með að fá húsnæði heldur en íslensku konurnar.“

Hún segir þetta ekki hafa leitt til þess að konur teppi pláss í athvarfinu fyrir öðrum konum sem þurfa skjól því Kvennaathvarfið sé neyðarathvarf og þar sé alltaf pláss fyrir eina konu í viðbót, hins vegar sé það engum gott að dvelja lengi í athvarfi. Konurnar þurfi að komast út í lífið aftur, ekki síst þær sem eru með börn, en helsta áhyggjuefnið sé að þær snúi aftur til ofbeldismannsins því þær eigi ekki í önnur hús að venda. 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV