Ferðamenn enn og aftur í háska í Reynisfjöru

08.02.2016 - 20:25
Mynd með færslu
 Mynd: Magnús H. Jóhannsson - Mudshar  -  RÚV
Mynd með færslu
Ítrekað hafa verið birtar myndir af ferðamönnum sem eru hætt komnir í Reynisfjöru. Þessi mynd er úr safni.  Mynd: Magnús H. Jóhannsson - Mudshar  -  RÚV
Fjöldi ferðamanna var hætt kominn í Reynisfjöru á laugardag þegar kraftmikil alda náði til þeirra. Að minnsta kosti sex þeirra lentu í öldunni og féll eldri maður um koll. Myndasyrpa sýnir þegar fjórir ferðamenn hlaupa undan stærðarinnar öldu. Sá sem tók myndirnar segir að ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum ef aldan hefði náð til þeirra.

„Þetta gengur ekki. Það verður hreinlega að gera eitthvað í þessu,“ segir Magnús H. Jóhannsson sem rekur ferðaþjónustufyrirtækið Mudshark. Hann var staddur við Reynisfjöru á laugardag og náði ógnvekjandi myndum þar sem alda náði til sex ferðamanna.

„Þetta gerist svo fljótt. Fólk var búið að stilla sér þarna upp í fjörunni með þrífót og allt að taka myndir. Svo bara tveimur sekúndum seinna kemur stærðarinnar alda og yfir hópinn.“ Á myndinni sem Magnús tók sést hópurinn forða sér undan en eldri maður féll um koll. „Fólk fer bara nær og nær. Alveg sama hvað leiðsögumenn segja. Svo bara gerist þetta svo hratt. Allt í einu kemur alda sem nær langt upp í land.“

Sjálfur var Magnús á staðnum með hóp af ferðamönnum en hann segist aldrei fara niður í fjöruna. „Ég skríð þarna með klettunum. Ég tek enga sénsa með þetta.“ Magnús náði einnig myndasyrpu af ferðamönnum sem rétt náðu að forða sér undan öldu annars staðar í fjörunni. Syrpuna má sjá hér að neðan.

„Fólkið stóð þarna við klett og þarf ekkert að spá frekar í því hvernig hefði farið ef aldan hefði náð til þeirra. Það er svo djúpt þarna rétt fyrir utan.“ Magnús segir löngu tímabært að herða umgengnisreglur á svæðinu.

Fjölmörg dæmi eru um að ferðamenn séu hætt komnir í Reynisfjöru. Bandarísk kona lést í fjörunni árið 2007 þegar alda hreif hana með sér. 

These images are from Reynisfjara beach today. No-one stands a chance if the waves sweep you out. Enjoy from a distance. Respect the forces of nature.

Posted by Mudshark.is on 6. febrúar 2016

Mynd með færslu
Ítrekað hafa verið birtar myndir af ferðamönnum sem eru hætt komnir í Reynisfjöru. Þessi mynd er úr safni.  Mynd: Magnús H. Jóhannsson - Mudshar  -  RÚV
Eldri maður liggur í flæðamálinu og þrífótur með myndavél fór í sjóinn.