Ferðamannagisting veldur íbúðaskorti á Höfn

19.03.2016 - 19:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á Höfn í Hornafirði hefur mikið af íbúðarhúsnæði breyst í gistiheimili fyrir ferðamenn og nú blasir alvarlegur húsnæðiskortur við í bænum. Illa hefur gengið að ráða aðkomufólk í störf því ekkert húsnæði er í boði og bæjaryfirvöld áforma að byggja allt að þrjú fjölbýlishús.

Þegar komið er til Hafnar í Hornafirði vekur athygli á hve mörgum húsum er að finna merkingar eins og þessar. Greinilega mikið upp úr því að hafa að hýsa ferðamenn. Sveitarfélagið tók saman að á undanförnum árum hafa 22 íbúðir á Höfn farið undir ferðaþjónustu. Nánast ekkert hefur verið byggt og nú eru 27 á biðlista eftir leiguíbúð hjá sveitarfélaginu.

„Við auglýsum áhugaverð störf og fáum mjög áhugaverða einstaklinga sem sækja um þau og svo kemur að því að þeir ætla að flytja hingað að þá bara fær fólk ekki húsnæði og hefur einfaldlega þurft að segja sig frá störfum,“ segir Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri á Hornafirði. „Þannig að við höfum misst af því að fá fólk til þess að flytja hingað og þar af leiðandi erum við ekki að vaxa sem skyldi sem sveitarfélag.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri á Hornafirði

Það er dýrt að byggja og fá lán og enginn hefur ráðist í framkvæmdir jafnvel þótt sveitarfélagið hafi gefið lóðir og gatnagerðargjöld. „Við erum að ráðast núna í verkefni sem að alla jafna ætti kannski ekki að vera á hendi sveitarfélaga, allavega ekki svona úti á landi. Þannig að við erum að skoða að byggja 2-3 lítil fjölbýlishús og búa til 10-15 íbúðir,“ segir Björn. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á bæjarstjórnarfundi.

Samkvæmt minnisblaði sem lagt var fyrir bæjarstjórn Hornafjarðar gæti sveitarfélagið lagt um helming af byggingarkostnaði inn í sjálfseignarstofnun sem ætti eftir það að vera rekin á leigutekjum. Í hverju 5 íbúða húsi myndi bærinn borga rúmar 50 milljónir.

„Þetta á reyndar eftir að vinna svolítið meira og athuga hvort það sé möguleiki á því að við getum fengið fyrirtæki eða einhverja með okkur inn í þetta félag sem að vantar þá íbúðir líka fyrir sitt starfsfólk,“ segir Björn. 

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV