Ferðamaður villtur á Fimmvörðuhálsi

08.03.2016 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd: Ferðafélag Íslands
Björgunarsveitir á Suðurlandi hafa verið kallaðar út til leitar að göngumanni á Fimmvörðuhálsi. Erlendur ferðalangur hugðist ganga hálsinn en hringdi eftir aðstoð þegar hann villtist af leið að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörg. Maðurinn er líklegast staddur norðan við Baldvinsskála samkvæmt upplýsingum sem hann hefur gefið. Ekkert amar að honum en þoka er á svæðinu og lítið skyggni, því bíður hann þar þangað til hjálp berst.

 Gangi vel verða björgunarmenn komnir að honum undir fjögur segir Þorsteinn Jónsson í Björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli. Hann er við tíunda mann á tveimur sleðum og þremur jeppum á leið til mannsins.  Þorsteinn segir að veður sé þokkalegt á svæðinu en maðurinn sé nokkuð hátt og þar sé þoka. Ferðalangurinn var að verða rafmagnslaus þegar hann hringdi en náði að gefa upp staðsetningarhnit. 

 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV