Ferðamaður villtur á Fimmvörðuhálsi

08.03.2016 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd: Ferðafélag Íslands
Björgunarsveitir á Suðurlandi hafa verið kallaðar út til leitar að göngumanni á Fimmvörðuhálsi. Erlendur ferðalangur hugðist ganga hálsinn en hringdi eftir aðstoð þegar hann villtist af leið að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörg. Maðurinn er líklegast staddur norðan við Baldvinsskála samkvæmt upplýsingum sem hann hefur gefið. Ekkert amar að honum en þoka er á svæðinu og lítið skyggni, því bíður hann þar þangað til hjálp berst.

 Gangi vel verða björgunarmenn komnir að honum undir fjögur segir Þorsteinn Jónsson í Björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli. Hann er við tíunda mann á tveimur sleðum og þremur jeppum á leið til mannsins.  Þorsteinn segir að veður sé þokkalegt á svæðinu en maðurinn sé nokkuð hátt og þar sé þoka. Ferðalangurinn var að verða rafmagnslaus þegar hann hringdi en náði að gefa upp staðsetningarhnit. 

 


Deila fréttAnna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV
08.03.2016 - 14:10