Ferðamaður settur í farbann vegna banaslyss

05.01.2016 - 17:52
Hæstiréttur Íslands.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Erlendur ferðamaður hefur verið úrskurðaður í farbann til 1. mars í tengslum við rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á banaslysi í Öræfum á annan dag jóla þegar tveir fólksbílar rákust saman á einbreiðri brú yfir Hólá. Maðurinn bauðst til að setja eina milljón króna í tryggingu en hann óttast að svokallað frumkvöðladvalarleyfi hans í Bretlandi falli úr gildi á meðan farbanninu stendur.

Hæstiréttur vísaði kæru mannsins frá í dag. Hann krafðist þess að úrskurður Héraðsdóms Suðurlands um farbannið yrði felldur úr gildi eða að hann fengi að halda frelsi sínu gegn því að setja tryggingu. 

Maðurinn ætlaði að fara af landi brott 30. desember en hann kom hingað til lands 22. desember ásamt vinkonu sinni. Tvö börn hins látna og eiginkona hans voru flutt á sjúkrahús til aðhlynningar eftir áreksturinn.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurlandi, sem lögð var fyrir héraðsdóm, kemur fram að maðurinn sé undir sterkum grun um að hafa valdið mannsbana af gáleysi og umferðarlagabrot. 

Vitni hafa borið að maðurinn hafi ekið á mikilli eða ansi mikill ferð inn á einbreiða brú þar sem fyrir var annar bíll sem átti sér ekki undankomu auðið. Þá bendi gögn málsins til þess að bíl mannsins hafi verið ekið yfir hámarkshraða áður en slysið varð og á mun meiri hraða en hinum bílnum.

Maðurinn hélt því fram að ekki hefði verið sýnt fram á að hann hefði hagað akstri sínum á gálausan hátt. Hann hafi ekki áður ekið í snjó og hálku og einbreiðar brýr séu honum framandi. Þegar hann hafi tekið bíl á leigu hafi honum ekki verið kynnt sérstaða íslenskra akstursaðstæðna. Hann sé miður sín eftir slysið, hér á landi þekki hann ekki nokkurn mann og hafi í engin hús að venda. 

Maðurinn sagðist jafnframt reka eigið hönnunarfyrirtæki og sjá um daglegan rekstur þess. Það sé fyrirsjáanlegt að reksturinn fari illa geti hann ekki verið til staðar til að sinna fyrirtækinu. Þá sé hann að kaupa og fá afhenta íbúð um miðjan janúar og hætta sé á því að frumkvöðladvalarleyfi hans í Bretlandi falli úr gildi. 

Héraðsdómur Suðurlands féllst ekki á þetta og taldi það engu breyta þótt hann hafi ekki verið vanur akstri við íslenskar vetraraðstæður eða að honum hafi ekki verið kynntar þær sérstaklega. Hann sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing sé lögð við.

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV