Ferðamaður dæmdur fyrir manndráp af gáleysi

16.03.2016 - 11:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
28 ára kínverskur ferðamaður, sem lenti í árekstri á einbreiðri brú í Öræfasveit í desember, var í morgun dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi. Hann þarf að greiða hátt í fimm milljónir króna í sakarkostnað.

Maðurinn játaði fyrir dómi. Í ákærunni kemur fram að hann hafi síðdegis annan í jólum ekið austur Suðurlandsveg í Öræfasveit, inn á einbreiða brú á Hólá. Hann var sakaður um að aka of hratt miðað við aðstæður þar sem snjór og krapi var á veginum og án nægjanlegrar aðgæslu þannig að hann hafi ekki haft fulla stjórn á bílnum. Bíllinn skall á annan bíl sem ekið var í gagnstæða átt, og átti skammt ófarið yfir brúna. Ökumaður hins bílsins, sem einnig var útlendingur, lést.

Maðurinn var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands í morgun, og til að greiða tæplega 4,8 milljónir króna í sakarkostnað. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu skýrist það meðal annars af rannsókn sem gerð var á bílunum, til að ganga úr skugga um að þeir hafi verið í lagi. Maðurinn var jafnframt sviptur ökuréttindum í tíu mánuði.