Félag um Vaðlaheiðargöng

09.03.2011 - 12:19
Mynd með færslu
Nýtt hlutafélag um gerð og rekstur Vaðlaheiðarganga var stofnað á Akureyri í morgun. Áætlað er að hefja framkvæmdir við göngin næsta haust og framkvæmdakostnaður verði 10,4 milljarðar króna.

Félagið Vaðlaheiðargöng hf. er í eigu Vegagerðarinnar sem fer með 51 prósents hlut og Greiðrar leiðar sem á 49 prósent. Auk þess að undirbúa og standa að gerð Vaðlaheiðarganga er ráðherra heimilt að fela félaginu að annast rekstur og viðhald ganganna að byggingu lokinni.


Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, segir að forvalsgögn vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Vaðlaheiðargöng séu nánst tilbúin og alþjóðlegt forval verði sent út á næstu tveimur vikum. Áætlað sé að bjóða verkið út með vorinu. Hreinn segir að tilboðum verði skilað í sumar og þá taki við samningar. vonast sé til að þetta ferli taki sex mánuði þannig að framkvæmdir eigi að geta hafist í haust.


Vegamálastjóri segir að í þessu ferli sé gert ráð fyrir að ljúka ýmsum óvissuþáttum eins og samningum við landeigendur, en þar standa yfir viðræður um greiðslu fyrir land sem fer undir gangamunna. Áætlaður framkvæmdatími er þrjú til þrjú og hálft ár og verklok samkvæmt því í árslok tvöþúsund og fjórtán.


Ný kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir að göngin muni kosta 10,4 milljarða og hefur þessi tala hækkað um 1,5 milljarða frá síðustu áætlun. Hreinn segir að þetta sé vegna verðlagshækkana, en síðan hafi hönnun mannvirkisins hafa breyst. Komið hafi fram nýja kröfur og göngin verði breiðari en áætlað hafi verið, eða 9,5 metrar í stað 8,5. Þá hafi kröfur um öryggi aukist, auk óvissukostnaðar til að mæta óvæntum uppákomum í framkvæmdinni.