Fátækragildra eða mikilvæg framför

29.02.2016 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: wikipedia.org
Tillögur nefndar um endurskoðun á almannatryggingakerfinu verða til þess að festa í fátæktargildru þau sem minnst geta unnið. Þetta segir formaður Öryrkjabandalagsins. Formaður Landssambands eldri borgara styður tillögurnar heils hugar. Þær séu mikilvægustu breytingarnar á lífeyriskerfinu í áraraðir.

Tillögur nefndar um endurskoðun almannatryggingalaga liggja fyrir. Þar á meðal annars að einfalda kerfið, leggja niður frítekjumark og einfalda skerðingar á tekjum. Með því er lögð niður svokölluð krónu á móti krónu lækkun framfærsluuppbótar vegna tekna. Lífeyrisaldur verði hækkaður um tvo mánuði á ári í tólf ár og verði þá sjötíu ár en jafnframt verði boðin sveigjanlegri starfslok, frá sextíu og fimm árum upp í áttatíu ár.

Deildar meiningar um tillögurnar

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalagsins, gagnrýnir tillögurnar og segir að tekjur þeirra sem eru með mesta örorku skerðist meira en í núverandi kerfi. Að auki borgi þeir skatt bæði af bótum og atvinnutekjum.

„Fjárhagslegur hvati í slíku kerfi er vitaskuld enginn og fólk ber jafnvel kostnað af því að stunda þá litlu vinnu sem það mögulega getur stundað. Þarna er verið að greipa þennan hóp fólks í fátæktargildrur, og dýpri gildrur en það býr við í dag,“ segir Ellen. 

Hún segir að einföldun bótakerfisins þurfi að þýða bætt kjör fyrir þau sem þiggja bæturnar. Haukur Ingibergsson, formaður Landssambands eldri borgara, styður tillögurnar hins vegar heils hugar. 

„Þetta er ein mikilvægasta breyting sem gerð hefur verið á lífeyriskerfinu í áraraðir.“

Haukur segir mikilvægt að einfalda kerfið og draga úr skerðingum, auk þess að bjóða sveigjanlegri starfslok. Hann telur víst að þetta auki atvinnuþátttöku og bæti hag flestra eldri borgara.

„Almennt talað á þetta kerfi sem nefndin leggur til að vera sveigjanlegra og geta tekið á ýmsum þeim málum sem kerfin í dag geta ekki, “ segir Haukur. 

 

 

 

 

Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV