Fann ástina og fær nýja handleggi

13.01.2016 - 08:29
Guðmundur Felix Grétarsson, sem missti hendurnar í vinnuslysi fyrir 18 árum, hefur dvalið í Frakklandi í tæplega þrjú ár. Hann er vongóður um að nú styttist í að hann fari í handaágræðslu, sem verður fyrsta aðgerð sinnar tegundar í heiminum. Á meðan á biðinni stóð fann Guðmundur ástina og gekk í það heilaga.

„Mér skilst bara á öllu að það sé allt að gerast núna,“ sagði Guðmundur í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hann fékk jákvæðar fréttir frá lækninum sem framkvæmir aðgerðina fyrir helgi. „Ég fékk skilaboð á laugardaginn, þegar ég var að gifta mig. Hann sendi mér kveðju og bað mig um að hafa samband svo við gætum bókað fund til að ganga frá þessu.“

En Guðmundur verður ekki aðeins nýjum handleggjum ríkari að dvölinni í Frakklandi lokinni. Því þar fann hann einnig ástina. „Ég var nú svo heppinn að kynnast þessari konu sem ég var að giftast, það er nú eitt. Þannig að þetta er nú ansi jákvætt. Og kominn með hund,“ bætti Guðmundur við.

Aðgerðin verður sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Kostnaður við framkvæmd hennar gæti orðið allt að 30 milljónir að sögn Guðmundar. Þá kostar endurhæfingin í kjölfarið allt að 7 milljónir á mánuði. Þrátt fyrir það er Guðmundur bjartsýnn og stefnir á heimför skömmu eftir aðgerð.

Viðtalið við Guðmund má heyra í heild sinni hér að ofan.

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV