Fái 640 milljónir eða gjaldþrot blasir við

08.02.2013 - 17:00
Mynd með færslu
Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, lagði það til í borgarráði að Harpa fengi 160 milljónir króna í viðbótarframlag frá ríki og borg árin 2013 til 2016, samtals 640 milljónir. Jafnframt var lagt til að eigendalánum uppá 794 milljónir verði breytt í hlutafé.

Í greinargerð sem fylgir tillögunni kemur  fram að verði ekki farið í ofangreindar aðgerðir komist fyrirtækið Harpa fljótlega í þrot og starfsemin hættir með talsverðum tilkostnaði fyrir eigendur.

Í greinargerðinni er það einnig rifjað upp að þegar verkefnið hafi verið yfirtekið af ríki og borg hafi verið gert ráð fyrir að fasteignagjöld yrðu 182 milljónir á verðlagi ársins 2013. Álögð fasteignagjöld eru nú 353 milljónir króna og mismunurinn því 155 milljónir króna, að því er fram kemur í greinargerðinni. 

Samfara þessum aðgerðum er  gert ráð fyrir að gengið verði frá samkomulagi við Landsbankann um skuldabréfaútgáfu sem meðal annars felur í sér fjármögnun sambankaláns uppá tæpa 16,5 milljarð, uppgreiðslu skammtímaláns vegna uppgjörs við ÍAV uppá hálfan milljarð, fjármögnun lántökukostnaðar uppá 352 milljónir, fjármögnun uppá 100 milljónir til að mæta lausafjárþörf, uppgreiðsla á yfirdrætti uppá 525 milljónir vegna fjármögnunar á taprekstri og fjármögnun áætlaðs halla á árunum 2013 til 2016 uppá 311 milljónir króna.

Í greinargerðinni segir einnig  að áætlanir stjórnenda Hörpu og ráðgjafafyrirtækisins KPMG geri ráð fyrir að fjárþörf vegna rekstar Hörpu á árunum 2012 til 2016 lækki úr tæpum hálfum milljarði í um 250 milljónir. Eins og komið hefur fram hafa stjórnendur Hörpu stefnt fasteignamati á fasteignum félagsins og ef Harpa vinnur málið gæti óleyst fjárþörf að mati KPMG lækkað til frambúðar um 120 milljónir.

Niðurstaðan úr því dómsmáli fæst þó ekki fyrr en fyrsta lagi árið 2014 og leysir því ekki þann lausafjárvanda sem Harpa stendur frammi fyrir, segir í greinargerð borgarstjóra. Niðurstaða hennar er því sú að Harpa hefur ekki sjálfbæran rekstragrundvöll á umræddu tímabili nema til komi aðgerðir eiganda fyrirtækisins.