Fagna breyttri stefnu í skólamálum á Hvanneyri

17.02.2016 - 17:11
Mynd með færslu
 Mynd: Landbúnaðarháskóli Íslands
Íbúar á Hvanneyri fagna því að málefni grunnskólans á Hvanneyri verða tekin til endurskoðunar. Í síðustu viku slitnaði upp úr meirihlutasamstarfi í Borgarbyggð eftir að ný tillaga um skólamál á Hvanneyri var lögð fram.

Hart hefur verið deilt um mál grunnskóladeildarinnar á Hvanneyri í tæpt ár.  Til stóð að loka grunnskóladeildinni sem olli mikilli óánægju íbúa. Í síðustu viku lögðu Sjálfstæðismenn, sem sátu í þáverandi meirihluta, fram tillögu um að endurskoða grunnskólamálin á Hvanneyri.  Það olli því að það slitnaði upp úr meirihlutasamstarfinu í Borgarbyggð. Rektor og yfirstjórn Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri sendu í dag frá sér yfirlýsingu þar sem því er fagnað að málefni grunnskólans verði tekin til endurskoðunar þar sem hagsmunir Landbúnaðarháskólans eru mjög samofnir þjónustustigi nærumhverfis hans. Í yfirlýsingunni er samtakamætti og krafti íbúanna á svæðinu þakkað þar sem íbúasamtök Hvanneyrar og nágrennis hafa undanfarna mánuði barist hart gegn því að grunnskóladeildinni væri lokað. Sólrún Halla Bjarnadóttir, sem er í stjórn samtakanna, fagnar breyttri stefnu hjá nýjum meirihluta, þar sem ýmsar forsendur hafi verið brostnar: „Við viljum að Borgarbyggð byggist upp, við viljum efla sveitarfélagið og að fólk vilji koma til okkar. Það er það sem við höfum alltaf haft að leiðarljósi hjá íbúasamtökunum. Við erum sátt við þessa niðurstöðu og erum til í að taka þátt í þessu upp á nýtt. Að þetta verði núllstillt og að við fáum að taka þátt í vinnunni með sveitarstjórn og öðrum.“ Sólrún Halla segir að nú þegar hafi starfsmenn leikskólans og grunnskólans hitt forsvarsmenn nýs meirihluta og fengið það staðfest að fyrsti til fjórði bekkur verði áfram á Hvanneyri, þótt enn eigi eftir að útfæra það.