Fá bætur fyrir vopnað áhlaup á brúðkaupsveislu

21.04.2017 - 16:01
Mynd með færslu
Stefán Logi handtekinn í Miðhúsaskógi kvöldið eftir.  Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt brúðhjónum og svaramanni þeirra 150 þúsund krónur á mann í miskabætur fyrir það þegar sérsveit lögreglu eyðilagði brúðkaupsveisluna þeirra í sumarbústað í Grímsnesi fyrir fjórum árum. Þyrla Landhelgisgæslunnar vomaði rétt yfir bústaðnum þegar vopnaðir sérsveitarmenn gerðu innrás í veisluna í leit að hættulegum ofbeldismanni sem tengdist fólkinu í veislunni ekki neitt.

Þetta var 11. júlí 2013. Lögregla var þá í miðri dauðaleit að Stefáni Loga Sívarssyni, sem var í felum vegna þáttar síns í svokölluðu Stokkseyrarmáli. Lögregla hafði fengið spurnir af því að Stefán Logi kynni að leynast í sumarhúsabyggðum á Suðurlandsundirlendinu og taldi upplýsingar um ferðir farsíma hans renna stoðum undir það.

Þegar lögreglumaður rakst svo á brúðhjónin og svaramanninn í Þrastarlundi taldi hann sig kannast við karlmennina báða – brúðguminn væri maður með mikla brotasögu og svaramanninum svipaði að minnsta kosti til Stefáns Loga. Hann lét vita af því sem hann hafði séð og þar með þrengdist hringurinn um þessa þriggja manna brúðkaupsveislu í bústaðnum.

Þetta var hins vegar ekki rétt hjá lögreglumanninum – brúðguminn var vissulega margdæmdur brotamaður en svaramaðurinn var alls ekki Stefán Logi.

Fóru fram á eina og hálfa milljón hvert

Síðar um daginn varð fólkið vart við þyrlu nálægt bústaðnum. Brúðina grunaði ekki í hvað stefndi. „Þegar þyrlan hafi birst við bústaðinn hafi henni dottið í hug að maður frænku hennar, sem vinnur hjá Landhelgisgæslunni, vissi af þeim í bústaðnum og ætlaði að veifa til þeirra,“ er haft eftir henni í dómnum.

Í stefnu sinni á hendur ríkinu lýsti fólkið því hins vegar að „hátíðarhöldin hafi fengið skjótan endi þegar vopnað lið svart- og grímuklæddra sérsveitarmanna hafi ruðst inn á lóð sumarhússins og skipað þeim að leggjast niður“. Þau hafi verið á veröndinni við bústaðinn þegar þetta gerðist, einn hafi lagst þegar í stað í jörðina en hinir hörfað inn í húsið og þar hafi þeir gefist upp og annar þeirra verið handjárnaður vegna brotasögu sinnar. Maðurinn lýsti atburðarásinni í viðtali við DV skömmu síðar. Þar birtist einnig myndband af áhlaupinu.

Í stefnunni segir fólkið að „aðgerð lögreglu hafi verið handahófskennd og farið langt út fyrir eðlilegt meðalhóf. Hún hafi eyðilagt brúðkaupsveislu stefnenda“. Þau fóru fram á eina og hálfa milljón króna í miskabætur fyrir hvert þeirra.

Óttuðust að Stefán Logi flýði eða gripi til vopna

Lögmaður ríkisins mótmælti þessari kröfu, sagði að aðgerðin hafi aðeins tekið nokkrar mínútur og að eftir hana hafi fólkið verið reist á fætur og þeim sem var handtekinn sleppt. Skammbyssurnar hafi ekki verið teknar úr slíðri en mikill hávaði hafi verið á vettvangi vegna þess hversu nálægt þyrlan var.

Lögreglan hafi ekki talið vænlegt til árangurs að gera boð á undan sér eða fara sér sérstaklega hægt. „Þegar handtaka eigi hættulegan mann sem sé í felum og sýnt þyki að viðkomandi muni reyna að komast hjá handtöku reyni lögregla að tryggja návist og öryggi hans eins hratt og örugglega og hægt sé. Eins og málið hafi verið vaxið hafi verið talin hætta á að hinn eftirlýsti brotamaður myndi reyna að flýja eða að hann byggi sig undir að verjast handtöku með vopnum eða öðrum hætti,“ sagði ríkislögmaður.

Raunar dró hann ekki í efa að fólkið hafi orðið fyrir ónæði vegna aðgerðanna en taldi að þær hefðu þó ekki valdið þeim fjártjóni eða miska. Engu að síður bauðst ríkið til að greiða fólkinu 150 þúsund krónur á mann, auk 100 þúsund króna hverju fyrir málskostnaði. Fólkið hafnaði því boði.

Bregður í hvert skipti sem hún heyrir í þyrlu

Í niðurstöðu dómsins segir að atburðir dagsins hafi haft mikil áhrif á brúðina. „Hún hafi verið kvíðasjúklingur fyrir og þetta hafi gert hana verri og nú bregði henni við í hvert skipti sem hún heyri í þyrlu.“ Hún hafi treyst lögreglunni fram að þessu en eftir þetta tengi hún lögreglu ekki við neitt gott, bara þetta atvik.

Dómurinn segir að ekki hafi verið lögð fram haldbær gögn um að frelsisskerðingin hafi haft varanlegar andlegar eða líkamlegar afleiðingar fyrir brúðkaupsgestina en fellst engu að síður á að aðgerðin og hvernig hún var framkvæmd hafi valdið þeim miska.

„Ró stefnenda, sem áttu sér einskis ills von eða höfðu nokkuð til þess unnið, var raskað með harkalegum hætti þar sem þau máttu síst eiga von á slíkri innrás,“ segir dómurinn. Fólkinu eru því dæmdar 150 þúsund krónur í miskabætur, sem er sama upphæð og ríkið hafði boðið, en allur málskostnaður er auk þess felldur á ríkið, samtals 900 þúsund krónur.

Stefán Logi var handtekinn kvöldið eftir í Miðhúsaskógi í Biskupstungum. Í apríl 2014 var hann dæmdur í sex ára fangelsi fyrir tvær frelsissviptingar og hrottalegar árásir. Annar maður, Stefán Blackburn, hlaut einnig sex ára fangelsisdóm í málinu. Sá fór með annað fórnarlambið á Stokkseyri að beiðni Stefáns Loga og pyntaði hann þar í kjallara. Einn hlaut þriggja og hálfs árs fangelsisdóm og tveir tveggja og hálfs árs dóma.