Eyjaskeggjar vilja aukna sjálfstjórn aftur

24.07.2017 - 06:14
Mynd með færslu
 Mynd: bertknot  -  flickr.com
Eyjaskeggjar á Norfolk-eyju í Kyrrahafi eru í öngum sínum eftir að niðurstöður manntalsins í fyrra urðu ljósar. Manntalið sýnir að íbúum sem eiga ættir að rekja til Picairn-eyju fer hratt fækkandi. Íbúar telja óhreint mjög í pokahorni ástralskra yfirvalda sem sáu um manntalið.

Íbúar eyjunnar eru ósáttir vegna þess hve litla stjórn þeir hafa á eigin högum. Eftir að eyjaskeggjar afsöluðu sér sjálfstjórn til Ástrala í fyrra fá þeir að taka lítinn þátt í áströlskum stjórnmálum. Þeir fá ekki að hafa nein afskipti af stjórn Nýju Suður-Wales, fylkinu sem eyjan tilheyrir, en fá að kjósa í ríkiskosningum.
Með fækkun Norfolk-búa sem komnir eru undan landnemum frá Pitcairn-eyju, óttast þeir að Ástralir séu að grafa undan tilraunum þeirra til að fá frekari þátttökurétt í eigin sveitastjórnarmálum.

Eyjaskeggjar hafa leitað til Sameinuðu þjóðanna eftir aðstoð. Andre Nobbs, fyrrum forsætisráðherra heimastjórnar Norfolk-eyjar, segir mál þeirra byggja á því að þjóðhættir og menning íbúa Norfolk sé mjög frábrugðin því sem þekkist á meginlandi Ástralíu. Samkvæmt manntalinu í fyrra eiga innan við 490 af rúmlega 1.700 íbúum Norfolk ættir að rekja til landnemanna frá Pitcairn, eða rúmlega 200 færri en í manntalinu 2011. Nobbs segir í samtali við Guardian að íbúa gruni áströlsk yfirvöld um að hafa skráð þá sem ráku ættir sínar til Norfolk-eyju sem Ástrali í manntalinu, enda henti það málstað ástralskra stjórnvalda betur. Raunveruleiki íbúa eyjarinnar sé sá að þeir séu þvingaðir til þess að taka upp ástralskan ríkisborgararétt vilji þeir fá aðgang að velferðarkerfi ríkisins.

Saga Norfolk-eyjar og íbúa hennar er löng. Hún er nánast mitt á milli Nýja-Sjálands og Nýju-Kaledóníu. Fyrstu íbúar hennar voru sjómenn frá Austur-Pólynesíu sem settust að á eyjunni á 13. eða 14. öld. Nokkrar kynslóðir þeirra bjuggu á eyjunni þar til ætt þeirra hvarf þaðan. Seint á 18. öld ákváðu bresk stjórnvöld að nema land á eyjunni. Nokkru síðar var hún gerð að fanganýlendu. Um miðja 19. öld hófst næsta bylgja landnáms á eyjunni. Afkomendur fólks frá Tahíti annars vegar og íbúa Pitcairn-eyju hins vegar voru fluttir á eyjuna. Pitcairn, sem var byggð sjófarendum sem strönduðu nærri eyjunni á breska skipinu Bounty, var orðin of þéttsetin og því var ákveðið að færa fólk þaðan til Norfolk.

Síðan þá hafa ýmis stjórnarform verið reynd á eyjunni. Árið 1979 fengu íbúar eyjunnar sjálfstjórn frá Ástralíu, og fengu eyjaskeggjar þá að ráða flestu sem snerist að stjórn eyjunnar. Áströlsk stjórnvöld íhuguðu að endurskoða þá ráðstöfun árið 2006, en ekkert varð úr því. Áratug síðar afsöluðu stjórnvöld í Norfolk sjálfstjórn sinni til Ástralíu, sem þýðir að íbúar eyjunnar lúta nú lögum Ástralíu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV