Eyjaferjan á borði innanríkisráðherra

09.02.2016 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Útboðsgögn vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju eru á borði innanríkisráðherra. Smíði ferjunnar verður væntanlega boðin út á næstunni, eftir að ráðherra hefur farið yfir málið og farið með það fyrir ríkisstjórn. Sérfræðingar Vegagerðarinnar og Innanríkisráðuneytisins hafa safnað saman og farið yfir gögnin á undanförnum vikum og mánuðum í samráði við norska hönnuði ferjunnar.

Áætlað var að bjóða smíðina út upp úr áramótum. Með því átti tilboðsferli og samningum að ljúka í vor. Reiknað er með að smíðin taki um 2 ár. Áætlað er að tilboðsferli taki 2-3 mánuði og úrvinnsla tilboða 1-2 mánuði. Samkvæmt þessu gæti ný ferja hafið siglingar sumarið 2018, verði engar óvæntar eða óviðráðanlegar tafir. Ólöf Nordal innanríkisráðherra ákveður endanlega hvenær smíðin verður boðin út.

Rafknúnar skrúfur

Samkvæmt svari innanríkisráðherra við fyrirspurn á Alþingi fyrir áramót er hönnunarkostnaður skipsins orðinn tæpar 150 milljónir króna. Allar meginlínur skipsins hafa verið hannaðar og siglingahæfni mæld. Ferjan ristir grynnra en gamli Herjólfur. Hún á að verða liprari í snúningum, en flutningsgeta þó engu minni. Skipið verður að hluta knúið með rafmagni. Skrúfur verða rafmagnsdrifnar þó rafmagnið verði búið til með díselvélum skipsins. Þannig á orka að nýtast betur, auk þess sem rafmagnstenging í höfn gæti bæst við með tíð og tíma. 

 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV