Evrópuþingið vill vopnasölubann á Sádi-Arabíu

26.02.2016 - 04:23
epa05179929 A child walks past her family's house that was destroyed by a Saudi-led airstrike at a neighborhood in Sana'a, Yemen, 25 February 2016. According to reports, the Saudi-led coalition stepped up its airstrikes on Sana'a, killing
Stúlkubarn við rústir heimilis síns í íbúðahverfi í útjaðri höfuðborgarinnar Sanaa. Húsið varð fyrir sprengju sem varpað var úr sádi-arabískri þotu í gær, fimmtudag.  Mynd: EPA
Evrópuþingið samþykkti í gær að kalla eftir vopnasölubanni aðildarríkja Evrópusambandsins til Sádi-Arabíu. 359 greiddu atkvæði með banninu, 212 voru á móti en 31 sat hjá. Ályktun þingsins er ekki bindandi fyrir aðildarríkin, en því er beint til þeirra að láta þegar í stað af allri vopnasölu til Sádi-Araba vegna ítrekaðra, mannskæðra árása þeirra á óbreytta borgara í Jemen-stríðinu.

Sádi-Arabar hafa margoft orðið berir að því að beita tunnu- og klasasprengjum í árásum sínum á skotmörk í Jemen, en ógerlegt er að beita þeim manndrápstólum af nokkurri nákvæmni. Þá hafa loftárásir þeirra almennt bitnað mjög á borgaralegum skotmörkum. Þúsundir óbreyttra borgara, þar á meðal fjöldi barna, hefur fallið í stríðinu.

Báðar fylkingar, Sádi-Arabar og bandamenn þeirra annars vegar, og uppreisnarmenn Hútí-hreyfingarinnar hins vegar, hafa verið sakaðar um að sjást ekki fyrir í hernaðaraðgerðum sínum og hirða lítt um það, hvort óbreyttir borgarar verði fyrir sprengjum þeirra og skothríð.

Sádi-Arabar þykja þó sýnu verstir hvað þetta snertir. Þeir eru meðal annars taldir ábyrgir fyrir loftárásum á mörg sjúkrahús og sjúkraskýli samtakanna Lækna án landamæra. Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt þátt Sádi-Araba í Jemen-stríðinu sérstaklega og segja þá bera mikla ábyrgð á þeirri sáru neyð sem jemenskur almenningur býr við.

Evrópskir vopnaframleiðendur selja Sádi-Aröbum vopn fyrir hundruð milljarða á ári hverju og salan hefur margfaldast frá því hernaðurinn í Jemen hófst í lok mars í fyrra.

Í umfjöllun breska blaðsins Independent um ályktun Evrópuþingsins kemur fram að breskir hergagnaframleiðendur einir og sér hafa selt þeim hergögn fyrir sem nemur 500 milljörðum króna á þeim ellefu mánuðum sem Jemenstríðið hefur staðið. 

Independent greinir einnig frá því að bresk þingnefnd sem fjallar um þróun á alþjóðavettvangi mælti með því á þriðjudag, að Bretar legðu bann við vopnasölu til Jemens, og færði fyrir því sömu rök og meirihluti Evrópuþingsins. Nokkrum klukkustundum síðar sátu Michael Fallon, varnarmálaráðherra, og fleiri ráðherrar úr stjórn Camerons, hátíðarkvöldverð í boði samtaka breskra hergagnaframleiðenda. Samtökin tilkynntu á samfélagsmiðlum í framhaldinu að Fallon hefði lýst miklum stuðningi við starf þeirra.