EVE Online í fyrsta sæti í keppni SÞ

26.10.2013 - 16:41
Mynd með færslu
Tölvuleikur CCP, EVE Online, var í fyrsta sæti í flokki afþreyingar og leikja í samkeppni Sameinuðu þjóðanna um bestu stafrænu lausnirnar, World Summit Award 2013. Tilkynnt var um verðlaunin í Sri Lanka síðdegis.

Markmið verðlaunanna er að verðlauna framúrskarandi lausnir í upplýsingatækni sem nýtast fólki.

Mikill heiður fyrir CCP

Jóhann Pétur Malmquist, prófessor við Háskóla Íslands, er í Sri Lanka, en hann valdi þau verkefni sem tilnefnd voru frá Íslandi og situr í dómnefnd í flokki stjórnsýslu og gagnaaðgangs og í flokki náms og vísinda. Hann segir að þetta sé mikill heiður fyrir CCP. Ánægjan með úrslitin sé jafnframt fyrst og fremst fólgin í heiðrinum og athyglinni, því ekkert verðlaunafé sé veitt. Alls bárust tilnefningar um rúmlega 460 verkefni víðs vegar að úr heiminum í keppnina í ár, þar af sex frá Íslandi. 

Forsvarsmönnum CCP var boðið að sækja ráðstefnu World Summit Award á Sri Lanka og kynna leikinn fyrir stórum hópi sérfræðinga og leita samstarfsaðila og bakhjarla. „Það skiptir verulegu máli að litla Íslandi vinnur þarna alþjóðlega keppni," segir Jóhann Pétur. Hann segir CCP og EVE Online fá heilmikla kynningu út á verðlaunin.  

Tvöfaldur heiður fyrir EVE Online

Örvar Halldórsson, hönnunarstjóri hjá CCP, segir verðlaunin mikinn heiður. Fyrst hafi EVE Online verið verðlaunað ásamt fjórum öðrum verkefnum og það hafi verið mikill heiður því innsendar tilnefningar hafi verið fjölmargar. Það hafi svo verið sérstaklega skemmtilegt að fá að fara upp á svið og taka á móti verðlaunum fyrir fyrsta sætið og fá verðlaunagrip með áletruninni Global Champion. Fulltrúar CCP hafi orðið varir við mikinn áhuga á leiknum þarna úti, auk þess sem sigurinn sé mjög þýðingarmikill fyrir Ísland sem fái einnig mikla kynningu. 

Sameinar fólk úr öllum heimshornum

Örvar segir dómnefndina helst líta til kynningarinnar og þeirra lausna sem þar er lögð áhersla á. Hann heldur að hópurinn hafi náð til dómnefndarinnar með því að segja að EVE Online sé ekki bara tölvuleikur heldur sé með honum hægt að sameina fólk úr öllum heimshornum og tengja það saman. Leikurinn hafi líka verið kynntur sem aðferð við að kenna fólki að vinna saman að sameiginlegum markmiðum, jafnvel þúsundum saman víðs vegar að úr heiminum. Ef það takist í tölvuleik þá sé ekkert sem segi að það takist ekki á öðrum sviðum lífsins. Þá bendir Örvar á að margir uppgötvi leiðtogahæfileika sína í leiknum sem þeir noti svo á öðrum sviðum. Að lokum sé það haft í hávegum innan leiksins að allir séu jafningjar. „Ég er mjög ánægður með að það hafi komist til skila. Við erum í skýunum með að hafa náð svona langt," segir Örvar. 

berglinde@ruv.is