Erum í ofneysluástandi

17.10.2013 - 19:10
Mynd með færslu
Næringarfræðingur segir að þjóðin sé í ofneysluástandi. Upphaflega hafi ráðleggingar um matarræði verið til að koma í veg fyrir skort. Hann segir að heillavænlegast sé að legja áherslu á matinn sem maður borðar í stað þess að eyða tíma í að telja ofan í sig vítamín og steinefni.

Það kannast flestir við það að hvað eftir annað koma fram kenningar eða fullyrðingar um hvað sé rétt að láta ofan í sig. Oftast snúast þessi ráð um leiðir til að grenna sig og hvað sé vænlegast að gera til að minnka ístruna. Nýjasta æðið er að borða kolvetnalitla fæðu og auka við sig í fituáti. Nú fá menn sér beikon og egg í morgunmat en líta ekki við kartöflum né hrísgrjónum svo eitthvað sé nefnt.  Íslendingar virðast hafa beinst inn á þessar brautir því að í síðasta mánuði jókst sala á smjöri um þriðjung miðað við sama tíma í fyrra.En hver er hin rétt sannleikur þegar kemur að matarræði? Þessu veltu matvælafræðingar fyrir sér í gær á fundi sem  Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands efndi til í tilefni matvæladagsins sem er í gær. Nú er unnið að því að ljúka við samnorrænar ráðleggingar um matarræði. Margir hafa komið að verkinu sem er á lokasprettinum.

Þórhallur Ingi Halldórsson næringafræðingur og dósent við Háskóla Íslands  segir greinlegt að margir séu að reyna að ná tilteknu jafnvægi þegar kemur að þyngd.  Hann segir að upphaflega hafi ráðleggingar um mataræði verið til að koma í veg fyrir skort. Tilgangur þeirra sé í raun enn sá sami. Hins vegar sé þjóðin í ofneysluástandi. Best sé að hugsa um matinn sjálfann en ekki að einblína á það að telja ofaní sig tiltelin vítamín og steinefni.