„Eru menn ekki að grínast“

20.02.2016 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Afar skiptar skoðanir virðast vera innan ríkissstjórnarflokkanna um ágæti búvörusamninga sem undirritaðir voru í gær. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar á Facebook-síðu sína „Eru menn ekki að grínast, aldrei með mínu samþykki á Alþingi Íslendinga.“ Annan tón kveður hins vegar við hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins.

Í bloggfærslu síðdegis í dag kemur Sigmundur Davíð búvörusamningum til varnar. Þar segir hann meðal annars

Þetta er löngu komið gott af stórfurðulegum árásum fáeinna talsmanna stórverslana á íslenska bændur.

Fjárframlög ríkisins til landbúnaðarmála hækka um tæpan milljarð króna á næsta ári samkvæmt nýjum búvörusamningum. Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu sagði í dag að neytendur borgi brúsann vegna nýju búvörusamninganna en fái ekki að njóta góðs af þeim. 

Það er verið að gera samninga til tíu ára upp á tæpa fjórtán milljarða á ári allavega fyrstu árin. Það þýðir á bilinu 130 til 140 milljarða á þessu tíu ára tímabili. Til hliðar við þetta er svo óbeini stuðningurinn sem greinin býr við sem er á bilinu, að flestra mati, á bilinu 9-10 milljarðar. Þá erum við að tala um á ársgrundvelli beinan stuðning 22-24 milljarðar og á tíu á tímabili á bilinu 220 til 240 milljarðar. 

Sagði Andrés Magnússon í hádegisfréttum RÚV.

Sigmundur Davíð segir á bloggsíðu sinni að fáeinir talsmenn stórverslana hafi staðið fyrir stórfurðulegum árásum á íslenska bændur. Þá rifjaði hann upp að árið 2011 hafi þáverandi formaður Samtaka verslunar og þjónustu hvatt til að Icesave-samningarnir væru samþykktir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefði falið í sér greiðslu hundruða milljarða króna úr landinu í erlendri mynt. Stuðningur við matvælaframleiðslu á Íslandi spari hins vegar gjaldeyri.

 

Að gagnrýna 13-14 milljarða stuðning við lægra vöruverð til neytenda og gjaldeyrissparnað upp á um 50 milljarða á ári með vísan til áforma um að greiða hundruð milljarða úr landi fyrir ekki neitt þegar enginn gjaldeyrir var til er vægast sagt furðulegt. En það er lýsandi fyrir hvað þeir sem það gera eru komnir langt út í haga í gagnrýni sinni á bændur og landbúnað, undirstöðuatvinnugrein á Íslandi í meira en 1100 ár.

Og allt til að geta eytt meiri gjaldeyri í að flytja inn meira af erlendum matvælum og selja þau með hærri álagningu.