Erill hjá lögreglu í nótt

Nærmynd af merki lögreglunnar með einkennisorðunum "Með lögum skal land byggja".
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Lögregla hafði í nógu að snúast í miðbæ og vesturbæ Reykjavíkur í gærkvöld og í nótt. Fótbrot, réttindi dyravarða, líkamsárás og innbrot voru á meðal verkefna næturinnar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrir miðnætti sótti lögreglan konu á hótel í vesturbæ Reykjavíkur. Hafði hún stigið feilspor á dansgólfinu með þeim afleiðingum að hún fótbrotnaði. Lögregla flutti hana á slysadeild til aðhlynningar.

Upp úr klukkan fjögur í nótt var karlmaður handtekinn fyrir að slá annan í andlitið með glasi á skemmtistað í miðborginni.

Lögregla athugaði réttindi dyravarða í miðborginni í nótt. Kom í ljós við athugunina að á þremur skemmtistöðum voru þeir ekki með tilskilin réttindi og skráði lögregla það hjá sér.

Á öðrum tímanum í nótt var tilkynnt um innbrot í bílageymslu í Breiðholti, en ekki er vitað hvort einhverju hafi verið stolið.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV