Erfiðara að hjálpa utangarðsmönnum hér

16.12.2016 - 15:43
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Þeir hafa flestir verið atvinnulausir frá hruni og á götunni árum saman, þeir eru tíðir gestir í gistiskýlinu við Lindargötu og hafa lítið gagn af meðferð þar sem hún er ekki í boði á þeirra móðurmáli. Þeir fá sínar bætur og fjárhagsaðstoð, kaupa sitt bús og árin líða. Nú á að bjóða þeim úrræði á vegum pólskra samtaka - í Póllandi. Starfsmaður Gistiskýlisins telur að erfitt gæti reynst að hjálpa utangarðsmönnum hér þar sem þeir fá bætur og geta haldið sjó.

„Við upplifum hér mikið vonleysi, það vill enginn vera í þessari stöðu, en það er mjög erfitt að ná sér eftir svona mörg ár. Flestir sem eru nú hér komu rétt fyrir hrun, 2007 eða 2008. Þeir náðu kannski ekki að vinna lengi og misstu vinnuna.“

Segir Joanna Marcinkowska, ráðgjafi innflytjenda hjá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur. Hún hefur verið í láni, eins og hún orðar það, hjá gistiskýlinu, undanfarna mánuði. Áður var þar enginn sem talaði pólsku og samskipti starfsfólks við pólska utangarðsmenn fóru fram með handapati. Um 30-40%  þeirra sem sækja gistiskýlið við Lindargötu koma frá Póllandi. Margir koma nánast hverja einustu nótt, þrátt fyrir að skýlið sé hugsað sem neyðarúrræði, og hafa gert um langa hríð, verið á götunni í 4-5 ár. Þeir hafa í fá hús að venda á daginn en Dagsetrinu var lokað í ágúst í fyrra. Þeir fara til Teresusystra á morgnana, sækja í kaffistofu Samhjálpar og sitja á bekkjum Vitatorgs. 

Heilsunni hrakað

Mennirnir fengu atvinnuleysisbætur fyrstu árin eftir að þeir misstu vinnuna og Joanna segir marga hafa farið að halla sér að flöskunni í aðgerðarleysinu. Þegar bótarétturinn kláraðist tóku við örorkubætur, sem eru lágar vegna búsetuskerðingar,og/eða fjárhagsaðstoð frá borginni. Hún segir að þeir fái um 140 þúsund krónur á mánuði. Joanna telur að sumir hafi verið í erfiðri stöðu áður en þeir komu til Íslands, verið atvinnulausir í Póllandi, aðrir ekki. það sé allur gangur á því og bakgrunnurinn misjafn. Heilsu margra hefur hrakað verulega og sumir eru að sögn Joönnu orðnir óvinnufærir. Þeir eru í raun fastir í þessari stöðu og afar erfitt að snúa við blaðinu þar sem fá úrræði eru í boði. 

„Fyrir þá er ekkert í boði nema tíu daga detox uppi á Vogi.“

Segir Joanna. Þeir geta setið meðferðina alla en skilja hana ekki þar sem þeir tala flestir hvorki íslensku né ensku. En finnst henni að borgin hafi brugðist þeim með því að hjálpa þeim ekki fyrr?

„Já, að vissu leyti kannski. En auðvitað er þetta eitthvað nýtt á Íslandi, þetta var aldrei fyrr.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gistiskýlið.

 

30 utangarðsmönnum býðst að fara til Póllands

Nú stendur til að bjóða mönnunum hjálp. Reykjavíkurborg samdi nýverið við Hollandsdeild pólskra félagasamtaka, Barka, um að ráðast í tilraunaverkefni til hálfs árs. Ráðningin og verkefnið allt er í höndum Barka í Hollandi, Reykjavíkurborg leggur eingöngu til fjármagn og húsnæði. Talið er að um 30 erlendir utangarðsmenn hér á landi komi til með að njóta góðs af því. Samtökin hafa í áratug liðsinnt Pólverjum og öðrum borgurum Mið- og Austur-Evrópuríkja sem lent hafa á götunni í Lundúnum, Dublin, Hamborg, Kaupmannahöfn, Antwerpen og Haag. Margir þeirra sem samtökin hafa hjálpað hafa valið að snúa aftur heim til Póllands og fara í meðferð þar, um 1700 frá árinu 2012. Aðstoð samtakanna byggir á jafningjafræðslu. Tveggja manna teymi verður starfandi hér á landi og með aðstöðu í gistiskýlinu. Annars vegar pólskur leiðtogi sem sjálfur hefur marga fjöruna sopið, verið á götunni og í neyslu. Hins vegar háskólamenntaður aðstoðarmaður. Búið er að ráða í stöðu leiðtoga og hann er farinn að kynna sér aðstæður hér. Þrjátíu umsóknir bárust um stöðu aðstoðarmanns sem verður valinn í samráði við leiðtogann.

„Erum ekki að ýta þeim út“

Joanna segir að vonandi verði hægt að byrja verkefnið í janúar. Utangarðsmönnunum býðst að fara til síns heimalands og fá meðferð þar. Reykjavíkurborg greiðir þá allan ferðakostnað. Þátttöku Reykjavíkurborgar sleppir eftir að mennirnir hafa verið skráðir hjá Barka í Póllandi. Úrræðið kostar borgina svipað mikið og það sem mönnunum býðst nú, hugsanlega aðeins meira. Joanna leggur áherslu á að mennirnir hafi frjálst val. 

„Við erum ekki að ýta þeim út, alls ekki. Þetta er allt á þeirra forsendum. Við horfum á þetta sem eitt af úrræðunum. Fólk ákveður sjálft. Ef þau ákveða að fara ekki vitum við líka að við þurfum að gera meira í þeirra málum hér á Íslandi. Ef fólk ákveður að fara út er þeim boðin meðferð á þeirra tungumáli og einhvers konar virkniúrræði til þess að koma sér í góða stöðu.“

Hún segir að þeir getifengið inni í búsetukjörnum sem samtökin starfrækja víðs vegar um Pólland. Þar búa þá nokkrir saman og styðji hver annan. Joanna segir að þeir geti verið nálægt heimabæ sínum og fjölskyldu en margir kjósi það síður.

Tengslarof og skömm

Tengslin hafi oft rofnað, þeirra nánustu viti lítið um aðstæður þeirra hér, það sé ákveðin skömm og fæstir gangist í raun við því að þeir séu alkóhólistar.

„Oft eru þau bara í sínum félagsskap. Þau eru ekki með neinn tengsl við Íslendinga sem gista í Gistiskýlinu. Það er svo mikil skipting. Þessi hópur er svo lágt settur að það má í raun segja að þeir standi lægra en hinir. Oft hefur samband þeirra við fjölskylduna rofnað, þau vilja ekki viðurkenna sína stöðu og vilja ekki að við segjum fólkinu þeirra frá stöðunni sem þau eru í.“

Samtökin gera ráð fyrir að erfiðara verði að hjálpa fólki hér

Joanna segir að Barka-samtökin geri ráð fyrir því að það verði erfiðara að hjálpa fólki hér að koma undir sig fótunum en til dæmis í Hollandi. Þau hafi því ákveðið að ráða sterkan leiðtoga til að sinna verkefninu, sá heitir Piotr. Ástæðan sé sú að hér nái menn engum botni. Þeir halda sjó í eymdinni, fá frítt fæði og húsnæði og geta fjármagnað neysluna. Joanna segir að fólk missi aldrei fjárhagsaðstoðina, detti aldrei út úr kerfinu og því sé hvatinn til þess að grípa til aðgerða og endurskoða stöðu sína lítill. Hún segir bæturnar hér mun hærri en í Póllandi og útigangsmennirnir beri þessar tölur saman, þó það sé ekki raunhæft, þar sem verð á vörum og þjónustu er mun lægra í Póllandi.

„Í Hollandi dettur fólk út úr kerfinu ef það er ekki í vinnu, það á ekki rétt á tekjum frá sveitarfélaginu og fær ekki að gista í gistiskýlum, til dæmis. Fólk ákveður þá kannski, ég þarf að gera eitthvað, ég á ekki neitt. Hér eru þau alltaf í kerfinu.“  

 

Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi