Erdogan boðar dauðarefsingu og fangabúninga

15.07.2017 - 23:21
epa06090029 A handout photo made available by the Turkish Presidental Press Office shows Turkish President Recep Tayyip Erdogan (L) and his wife Emine Erdogan (R) greeting supports during a rally for the first anniversary of the failed coup attempt on
 Mynd: EPA  -  PRESIDENTAL PRESS OFFICE HANDOUT
Í ræðu sem Tyrklandsforseti hélt í kvöld undirstrikaði hann vilja sinn til að innleiða dauðarefsingu í landinu á ný og lagði til að fangar yrðu framvegis íklæddir sérstökum fangabúningum eins og þeim, sem tíðkast í Guantanamo. Recep Tayip Erdogan ávarpaði hundruð þúsunda Tyrkja sem söfnuðust saman á og við Bospórus-brúna í Istanbúl í dag til að minnast þess að ár er liðið frá misheppnaðri valdaránstilraun. Forsetinn hét því að enginn, sem sviki tyrknesku þjóðina, myndi sleppa frá því órefsað.

Í frétt AFP segir að Erdogan hafi hótað að „höggva höfuðið“ af svikurunum, við góðar undirtektir fundargesta. Hann sagði Tyrkland lýðræðis- og réttarríki, og því yrði dauðarefsing ekki tekin upp að nýju nema fyrir tilstuðlan þingsins. Samþykki þingið hins vegar lög þessa efnis, muni hann undirrita þau tafarlaust.

Auk hótana um að gera þá sem þátt tóku í valdaránstilrauninni höfðinu styttri lagði Erdogan til að þeir yrðu leiddir fyrir rétt í appelsínugulum fangasamfestingum, eins og tíðkast í hinum illræmdu fangabúðum Bandaríkjamanna í Guantanamo-flóa á Kúbu. Ástæðan er sú, að grunaður valdaránsmaður mætti fyrir dómara fyrir skemmstu, klæddur gallabuxum og stuttermabol með orðið „Hetja" prentað stórum stöfum þvert yfir brjóstið.

Tólf ár eru síðan Tyrkir aflögðu dauðarefsingu, til að mæta skilyrðum Evrópusambandsins varðandi mögulega inngöngu Tyrkja í það. Lítið hefur miðað í aðildarviðræðum Tyrkja og ESB síðan og hefur Evrópusambandið verið sakað um að draga mjög lappirnar í því máli.

Tyrkneskir stjórnmálamenn ítrekað haldið því fram að hjá aðildarlöndum Evrópusambandsins sé enginn raunverulegur vilji fyrir því, að veita Tyrkjum aðild. Atburðarás síðustu missera og málflutningur tyrkneskra stjórnmálamanna, þar á meðal Erdogans, benda til þess að áhuginn á Evrópusambandsaðild sé einnig með minnsta móti Tyrklandsmegin. Ræða forsetans í kvöld er enn ein vísbendingin um þetta.

Að lokum má geta þess að brúin yfir Bospórus hefur fengið nýtt nafn og kallast nú Píslarvottabrúin.