Er meirihluti fyrir sölu á Landsbankanum?

21.01.2016 - 15:15
Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu við sérstaka umræða á alþingi um sölu banka í eigu ríkisins að augljós óvissa væri um það hvort þingmeirihluti væri fyrir því að hefja sölu á nær 30 prósenta hlut ríkisins í Landsbankanum á þessu ári, eins og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur boðað. Frosti Sigurjónsson Framsóknarflokki, formaður efnahags og viðskiptanefndar, lýsti sig andvígan áformunum.

Það var Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar sem kallaði eftir umræðunni og hann minnti á að afar illa hefði tekist til við einkavæðingu bankanna í upphafi aldarinnar. Því væri gríðarlega mikilvægt að vel og faglega yrði staðið að sölu á eign ríkisins í bönkunum núna. Hann er efins um réttmæli þess að hefja sölu á hlut í Landsbankanum á þessu ári og telur að það eigi eftir að marka stefnu um eigendastefnu ríkisins, um hvort aðskilja eigi almenna bankastarfsemi og annars konar bankastarfsemi, um hvert eigifjárhlutfall eigi að vera. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra benti að með því að ríkið fengi Íslandsbanka til eignar sem stöðugleikaframlag væri ríkið orðið langstærsti aðilinn á íslenskum fjármálaráðherra. Það væri ekki góð staða. Um þetta voru hann og Árni Páll raunar sammála og líka um að æskilegt væri að traustur erlendur aðili eignaðist að minnsta kosti einn stóru bankanna. Bjarni vitnaði í nýja skýrslu Bankasýslu ríkisins sem mælir að sala hefjist á hlutum í Landsbankanum að uppfylltum fjórum skilyrðum. Þeim skilyrðum hefði verið fullnægt nú þegar að mati Bankasýslunnar. En Frosti Sigurjónsson formaður efnahags og viðskiptanefndar sagði að niðurstaða Bankasýslunnar kæmi sér á óvart. Söluferli Arion banka væri hafið og markaðurinn mettaður. Meðan svo háttaði til væri engin von til þess að viðunandi verð fengist fyrir hluti í Landsbankanum. Ekkert lægi á, hagfeldast væri að ræikið ætti Landsbankann áfram um sinn, enda skilaði hann eiganda sínum, ríkinu, tugum milljarða í arð á ári hverju.

 

 

 

Mynd með færslu
Jón Guðni Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi