Enn vantar fólk og peninga í túlkaþjónustu

06.01.2016 - 19:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Reglur um túlkaþjónustu hafa ekki breyst síðan dómur í máli sjón- og heyrnarskertrar stúlku féll fyrir hálfu ári. Þetta segir forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra. Enn vanti mannafla og peninga.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í júní að íslenska ríkið hefði brotið á rétti Snædísar Ránar Hjartardóttur sem er verulega sjón- og heyrnarskert. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ríkið bryti gegn stjórnarskrárvörðum rétti Snædísar með því að synja henni um endurgjaldslausa túlkun. Menntamálaráðherra ákvað að áfrýja ekki dómnum og sagðist sammála því sem þar kom fram, að túlkaþjónusta teldist til mannréttinda. Því hefði túlkasjóður verið efldur.

„Og það auðvitað endurspeglast í því að frá því að þessi ríkisstjórn tók við höfum við aukið framlagið úr 12 milljónum og upp í 30. Og auðvitað vonumst við til þess að við séum núna komin með nægilegt fjármagn í sjóðinn til þess að hann geti staðið undir sínu hlutverki,“ sagði Illugi Gunnarsson í fréttum RÚV 2. júlí í fyrra, eftir að dómurinn féll.

Nú hálfu ári síðar eru þó enn vandamál varðandi túlkaþjónustuna. Þannig fékk Áslaug Ýr, systir Snædísar, ekki túlk í stúdentsveislu sína í desember eins og greint var frá í fréttum RÚV í gær.

„Það er mjög leiðinlegt að svoleiðis gerist,“ segir Valgerður Stefánsdóttir, forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra. „Í sambandi við þessa frétt sem kom í gær er staðan bara þannig að það er ekki hægt að finna starfsfólk sem getur sinnt þessu því það þarf fleiri en einn. Og við getum ekki ráðið við það. Og það er mjög leiðinlegt.“

Nú er hálft ár síðan dómur féll í máli Snædísar Ránar í héraði, hefur ekkert breyst í túlkaþjónustu síðan?

„Nei þeir hafa ekkert breyst rammarnir í kringum túlkaþjónustu. Við höfum fengið meira fé í hana en við erum ekki komin með neina ramma eða reglur og það var það sem dómurinn gekk út á, að það væru engar reglur sem fylgdu þessu. En það er hins vegar verið að smíða reglur eða breytingar á reglugerð Samskiptamiðstöðvar uppi í Menntamálaráðuneyti og þær verða birtar væntanlega mjög fljótlega.“

Laga þessar reglur stöðuna?

„Þær laga ekki stöðuna en þetta eru hins vegar reglur um hvernig eigi að deila út því takmarkaða fé sem til er. Það er þannig að við munum þurfa að forgangsraða. Annað hvort vegna þess að við höfum ekki mannafla sem getur unnið þessa vinnu eða við höfum ekki næga peninga til að gera það. Það eru báðir þessir þættir sem ráða,“ segir Valgerður.