Engin lögregla í Búðardal þegar brann

01.02.2016 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Gísli Einarsson
Lögreglan var ekki komin á staðinn þegar tilkynnt var um eldinn þrátt fyrir að tilkynning um ólæti við hótelið hafi borist hálftíma fyrr. Ástæðan er sú að lögreglan á Vesturlandi kom úr Borgarnesi sem er talsvert meira en klukkutíma akstur. Lögreglan er með starfsstöð í Búðardal, sem er í um 20 mínútna akstursfjarlægð, en hún var ekki mönnuð þessa nótt.

Lögreglan segir að mönnun þar geti verið tilfallandi og ráðist af verkefnum og vaktafyrirkomulagi. Nýr lögreglumaður taki til starfa í Búðardal í dag. Lögreglunni á Vestfjörðum bárust jafnframt báðar tilkynningarnar þessa nótt en næsta starfsstöð embættisins er á Hólmavík. Lögreglan á Hólmavík þurfti að fara um fjallveginn um Þröskulda og lögreglan í Borgarnesi um Bröttubrekku, sem geta verið illfærir að vetri til.

Tildrög brunans á Hótel Ljósalandi í Saurbæ í Dölum eru enn nokkuð óljós, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vesturlandi. Lögreglan á Vesturlandi fer með rannsóknina og hafa rannsóknarlögreglumenn verið að störfum í gær og í dag. Samkvæmt upplýsingum frá henni hafa nokkrir verið yfirheyrðir. Maður, sem er jafnframt eigandi hótelsins, var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 4. febrúar og fluttur á Litla Hraun fyrir hádegi.