Engin gögn fást varðandi mál Roberts Downey

06.07.2017 - 13:22
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Héraðsdómur Reykjaness hefur hafnað beiðni fréttastofu RÚV um gögn sem lögð voru fram í dómsmáli þar sem fallist var á beiðni Roberts Downey, áður Róbert Árni Harðarson, um að hann fengi lögmannsréttindi sín aftur. Meðal gagna, sem fréttastofa óskaði eftir, var greinargerð ríkissaksóknara, umsögn Lögmannafélags Íslands og krafa Jóns Steinars Gunnlaugssonar, lögmanns Roberts.

Héraðsdómur segir í svari sínu til fréttastofu að leitað hafi verið eftir afstöðu þeirra sem aðkomu áttu að málinu.   Ríkissaksóknari hafi ekki verið andsnúinn afhendingu svo framarlega sem hún ætti stoð í lögum. Robert og Jón Steinar lögðust gegn afhendingu gagnanna til fréttastofu, samkvæmt svari héraðsdóms.

Þá kemur enn fremur fram í svarinu að samkvæmt lögum um meðferð sakamála skal þeim, sem þess óskar, veittur aðgangur að ákæru í máli og greinargerð ákærða. Með sama hætti skuli láta í té endurrit úr dómabók og af úrskurðum og ákvörðunum sem færðar hafa verið í þingbók. „Að öðru leyti er ekki heimilt að veita utanaðkomandi aðgang að gögnum mála sem rekin eru samkvæmt ákvæðum laganna.“ Dóminum beri því ekki að afhenda fréttastofu gögnin sem óskað var eftir.

Dómsmálaráðuneytið hefur sömuleiðis hafnað beiðni fjölmiðla um að afhenda umsókn Roberts sem og nöfn þeirra sem vottuðu um góða hegðun hans sem er skilyrði þess að hægt sé að fá uppreist æru. Sem svo aftur var forsenda þess að Robert gat aftur fengið lögmannsréttindi sín.

Fréttastofa hefur kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál en gagnrýnt hefur verið hversu lengi nefndin hefur verið með mál til meðferðar.  Í fréttum RÚV í júní á síðasta ári kom fram að það hefði tekið nefndina að meðaltali um tíu mánuði að komast að niðurstöðu.

Sú ákvörðun að veita Robert uppreist æru hefur vakið sterk viðbrögð en hann var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum ungum stúlkum. Hann var þá starfandi lögmaður.  

Bergur Þór Ingólfsson, faðir einnar stúlkunnar, hefur óskað eftir því að dómsmálaráðuneytið endurskoði mál Roberts og spurði í grein í Fréttablaðinu í lok síðasta mánaðar. „„Hverjir eru þeir tveir valinkunnu einstaklingar sem, samkvæmt lögum, settu nafn sitt við að maðurinn sé fullkomlega fær um að girnast ekki börn framar?“