Engin ákvörðun tekin um aðstoð vegna bannsins

14.01.2016 - 19:23
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnhildur Thorlacius  -  RÚV
Fjármálaráðherra segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar um stuðning við byggðir sem innflutningsbann Rússa bitnar verst á. Hann segir rétt að hugleiða hvort ákvarðanir um viðskiptaþvinganir verði framvegis teknar af Alþingi eða hvort stjórnkerfið eigi að gera það. Þá segir hann formlega afstöðu ekki hafa verið tekna til tillögu utanríkisráðherra um framlengingu bannsins.

 

Samkvæmt skýrslu sem unnin var fyrir fjögur ráðuneyti getur tekjutapið vegna innflutningsbanns Rússa á íslenskar sjávarafurðir numið frá tveimur og upp í átján milljarða króna, allt eftir lengd og fleiru. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir mikilvægt að þetta hafi verið tekið saman því stóru tölurnar hafi verið á reiki. Tekjutapið sé mikið, ekki síst fyrir einstaklinga, því fyrirtækin geti brugðist við til dæmis með því að bræða aflann í mjöl og lýsi. Tekjutapið verði mest á landsbyggðinni þar sem uppsjávarveiðin hefur verið mest. Bæði utanríkisráðherra og sjávarútvegsráðherra hafa sagt að aðstoða þurfi þær byggðir sem verst fara út úr banninu.

„Það hefur aldrei verið útilokað en við höfum ekki tekið neina ákvörðun um slíkt Þetta er auðvitað mikið matsatriði hvernig eigi að fara í slíkt. 

„Verður farið í að skoða það nánar?“

„Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það, hvort að það kemur til þess. En það er í skoðun að minnsta kosti. Þetta er svolítið eins og oft hefur gerst í gegnum tíðina hjá okkur, að það verður eins konar aflabrestur", segir fjármálaráðherra.

Utanríkisráðherra hefur sagt að ekki verði hvikað frá stefnunni varðandi þátttöku í viðskiptaþvingunum gegn Rússum, en sjávarútvegsráðherra hefur lýst ákveðnum efasemdum varðandi bannið. Bjarni segir einhug um að bregðast við framkomu Rússa varðandi Krímskaga og innanríkismál Úkraínu. Umræðan hvað viðskiptaþvingarnirnar varðar snúist um með hvaða hætti Íslendingar komi að viðskiptaþvingunum með öðrum löndum og með hvaða hætti þeir gæti eigin hagsmuna, líkt og aðrar þjóðir gæti sinna. Með því að innleiða pakka sem aðrar þjóðir hafa útbúið út frá hagsmunum sínum, eigi Íslendingar á hættu að klemmast á milli, eins og hann orðar það, og það þurfi að ræða. Ekki þurfi að efast um samstöðu Íslendinga með vina- og bandalagsþjóðum varðandi þau pólitísku skilaboð sem verið sé að senda Rússum. Einnig þurfi að hugleiða hvort í framtíðinni verði svona mál lögð fyrir Alþingi eða hvort stjórnkerfið eitt taki ákvörðun. Bjarni vill ekki segja hvort að of geyst hafi verið farið í þátttöku  í viðskiptabanninu.

„Ég ætla ekkert að fella neina dóma. Mér finnst aðalatriðið, eins og sakir standa, að við gætum að þessum utanríkis- og innanríkishagsmunum okkar sem allra best.“

Fjármálaráðherra segir mikilvægast núna að meta stöðuna varðandi viðskiptabannið á Rússa á hverjum tíma. 

„Utanríkisráðherrann leggur fyrir ríkisstjórnina stöðumat og síðan tillögu í frarmhaldinu. Mér sýnist að hans tillaga að þessu sinni sé framlenging á viðskiptaþvingunum sem enn hefur ekki verið formlega tekin afstaða til en það skiptir auðvitað máli að menn velti fyrir sér þeim rökum sem bandamenn okkar tefla fram til rökstuðnings á framlengingu bannsins og það er í raun eina skynsamlega leiðin fyrir okkur og ræða það við þingið í leiðinni. Þetta verða menn að skoða eftir því sem aðstæðurnar breytast og málin þróast.“

Hann segist með þessu ekki vera að lýsa efasemdum um að halda eigi áfram á sömu braut.

„Nei, það er eins og margir séu að leita að klofningi í ríkisstjórninni um þessi mál og umræðan vill gjarnan fara út í það að sumir standi ekki með bandamönnum út af þessum málum. Það er bara alrangt. En það er hins vegar stórkostlegt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að vanda til verka þegar við tökum ákvörðun um upptöku viðskiptaþvingana sem að aðrir hafa samið án þess að við værum við borðið“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. 

 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV