Endurvinna 2.400 tonn af plasti á ári

18.01.2016 - 18:54
Mynd með færslu
 Mynd: Dagur Gunnarsson
Reykjavíkurborg stefnir að því að láta endurvinna 2.400 tonn af plasti árlega í stað þess að urða það sem sorp. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu standa sig misvel í sorphirðu.

Það er víst löngu liðin tíð að allt sorp frá heimilinu fari í eina tunnu. Dagblöð og pappír fara í bláu tunnuna og nú er Reykjavíkurborg að moka út grænu tunnnunni fyrir plast. Og nú gildir að flokka, því sorp er hirt sjaldnar en áður í Reykjavík.))

„Við erum að fara núna í hirðu á plastefnum við íbúðarhús og við það fer svolítið af úrgangnum úr blandaða sorpinu, við getum gert ráð fyrir að það fari um þriðjungur úr tunnu ef við náum markmiðum okkar um 60 prósent flokkun á plasti og það þýðir að við erum með pláss til að draga úr hirðutíðninni og lækka kostnað við losun á blönduðu sorpi,“ segir Guðmundur B. Friðriksson skrifstofustjóri á skrifstofu umhverfisgæða í Reykjavík. 

Frá áramótum eru gráu tunnurnar fyrir blandaðan úrgang hirtar á 14 daga fresti í stað 10. Græna og bláa tunnan eru hirtar á þriggja vikna fresti.
Sorphirðan er með svipuðum hætti annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Í Garðabæ er gráa tunnan hirt á 10 daga fresti og sú bláa á 20 daga fresti. Í Hafnarfirði, Kópavogi og Seltjarnarnesi er gráa tunnan hirt á 14 daga fresti og sú bláa á 28 daga fresti. Í Mosfellsbæ er gráa tunnan hirt á 10 daga fresti og bláa á þriggja vikna fresti.

Fólk hendir minna ef það flokka, segir Guðmundur. „Já rannsóknir hafa sýnt að með aukinni flokkun þá verður þú meðvitaðari um það sem fellur til hjá þér. Þú berð minna inn á heimilið og þú spáir meira í hvað fellur til.“

Blandað sorp úr gráu tunnunum frá Reykvíkingum fer til Sorpu, þar sem það er pressað og síðan urðað í Álfsnesi, alls um 18 þúsund tonn á ári. Sorpið úr bláu og grænu tunnunum er hins vegar sent til Svíþjóðar þar sem það er endurunnið. Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir að ná 60% flokkun plasts og það munar um minna.

„Við gætum verið að senda um 2.400 tonn af plastefnum til endurvinnslu, þannig að það má nýta efnið aftur og það er heilmikill umhverfislegur ávinningur af því.“

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV