Endurupptökur Guðmundar- og Geirfinnsmála

24.02.2017 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Endurupptökunefnd hefur fallist á endurupptöku á dómi Hæstaréttar þar sem Kristján Viðar Júlíusson, Sævar Marínó Ciesielski og Tryggvi Rúnar Leifsson voru sakfelldir fyrir að hafa orðið Guðmundi Einarssyni að bana í janúarmánuði árið 1974. Þá fellst endurupptökunefndin sömuleiðis á að dómur Hæstaréttar yfir Alberti Klahn Skaftasyni, sem var sakfelldur fyrir hlutdeild að brotum þremenninganna, verði sömuleiðis tekinn upp aftur.

 

Nefndin fellst líka á endurupptöku á málum Guðjóns Skarphéðinssonar, Kristjáns Viðars og Sævars, sem voru sakfelldir fyrir að hafa banað Geirfinni Einarssyni í nóvember árið 1974. Endurupptökunefndin hafnaði hins vegar beiðnum Erlu Bolladóttur, Kristjáns Viðars og Sævars um endurupptöku á dómi Hæstaréttar sem sakfelldi þau fyrir að bera menn röngum sökum.
Við fórum yfir þessi  tíðindi dagsins með Brodda Broddasyni fréttamanni.

Við heyrðum líka viðtöl við Kristínu Önnu Tryggvadóttur, dóttur Tryggva Rúnars Leifssonar, og Sigríði Sjöfn Sigurbjörnsdóttur, ekkju Tryggva - sem og Lúðvík Bergvinsson lögmann sem gætir hagsmuna Tryggva og Sævars, en þeir eru báðir látnir. Við töluðum svo við Ragnar Aðalsteinsson, lögmann Erlu Bolladóttur. Nefndin hafnaði beiðni hennar um endurupptöku. 

Óveðrið sem geisar nú á landinu hefur gert usla víða. Vegagerðin hefur lokað vegum, flug legið niðri og fólk t.d. þurft að leita skjóls í Klébergsskóla á Kjalarnesi vegna veðurs. Við töluðum við Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, sem hefur haft í nógu að snúast.

Föstudagsgesturinn okkar var Margrét Örnólfsdóttir, formaður félags leikskálda og handritshöfunda. Hún var einn aðalhandritshöfundur Fanga, er ein þeirra sem skrifa nú Ófærð II og einn örfárra Íslendinga sem vinnur við handritaskrif. Við ræddum sjónvarpsþátta- og kvikmyndabransann við hana en líka hlut kvenna innan geirans; ný úttekt sem Kvenréttindafélag Íslands tók þátt í sýnir að 7% kvikmynda sem sýndar voru í íslenskum kvikmyndahúsum í fyrra var leikstýrt af konum og 16% þeirra voru skrifaðar af konum.

Spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur hefst í sjónvarpinu í kvöld, þá mætast MR og MH. Bryndís Björgvinsdóttir, dómari og Björn Bragi Arnarson spyrill kíktu í heimsókn.

Við hringdum líka til Los Angeles, þar sem Óskarsverðlaunahátíðin fer fram á sunnudagskvöld - töluðum við Dröfn Ösp Snorradóttur sem fylgist spennt með.

 

Mynd með færslu
Guðmundur Pálsson
dagskrárgerðarmaður
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi