Embættismaður Hvíta hússins til rannsóknar

19.05.2017 - 22:56
epa05973177 US President Donald J. Trump speaks during a news conference with Juan Manuel Santos, Colombia's president, not pictured, in the East Room of the White House in Washington, DC, USA, on 18 May 2017.  EPA/Andrew Harrer / POOL
 Mynd: EPA  -  Bloomberg POOL
Háttsettur starfsmaður í Hvíta húsinu er meðal þeirra sem rannsókn á tengslum fylgismanna Donalds Trumps við Rússa beinist að. Þetta herma heimildir bandaríska dagblaðsins Washington Post. Þetta er sagt til marks um að rannsóknin sé farin að snerta æðstu stjórn ríkisins.

Rannsakendur eru farnir að taka viðtöl við fólk og fá gefnar út tilskipanir um að fólk mæti til yfirheyrslu, að því er fram kemur á vef blaðsins. Michael Flynn, þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, varð að segja af sér vegna ósannra yfirlýsinga sinna um samskipti við Rússa. Hann sætir enn rannsókn. Sama á við Paul Manafort, fyrrverandi formanns stjórnar kosningabaráttu Donalds Trumps. 

Á vef New York Times er fullyrt að Donald Trump hafi sagt rússneskum embættismönnum fyrr í þessum mánuði að hann hefði losnað undan miklum þrýstingi með því að víkja James Comey úr embætti forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar, FBI. Trump er sagður hafa lýst Comey með þeim orðum að hann væri brjálaður. Forsetinn hefði sagst vera undir miklum þrýstingi vegna Rússlands og að með brottvikningu Comeys hefði verið létt á þeim þrýstingi. New York Times hefur þetta eftir tveimur ónefndum heimildarmönnum sem hafa aðgang að minnismiðum um fund Trumps með rússnesku embættismönnunum. Blaðið hefur eftir Sean Spicer, blaðafulltrúa Trumps, að Comey hafði skapað óþarfa þrýsting með framgöngu sinni sem hefði gert rannsóknina á tengslum Rússa við stuðningsmenn Trumps að pólitísku viðfangsefni. Þar með hefði Bandaríkjastjórn átt erfiðara en ella með að semja við Rússa.