Eldgosið jafnt og stöðugt

23.03.2010 - 07:18
Mynd með færslu
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hefur verið jafnt og stöðugt í nótt að sögn Gunnars B Guðmundssonar jarðeðlisfræðings á veðurstofu íslands. Krafturinn hefur ekki aukist eins hann gerði hægt og bítandi í gær, heldur staðið í heildina í stað í nótt. Sveiflur eru þó í gosinu. Slæmt veður er á Suðurlandi og veðurspáin er slæm.

Um hálf níu leytið í gærkvöld varð gufusprenging þegar kvika komst í snertingu við ís og reis gufustókur þá upp frá gossprungunni og náði 7 kílómetra hæð. Einir tíu smáskjálftar hafa mælst undir Eyjafjallajökli í nótt.

Ágúst Gunnar Gylfason hefur verið á vakt Almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík. Hann segir að rólegt hafi verið fyrir austan. Lögreglumenn hafi verið á vakt inn við Fljótsdal megnið af nóttinni og í alla nótt við gömlu Markarfljótsbrúna til að tryggja að vegurinn inn í Þórsmörk væri lokaður. Ekkert ferðaveður hafi verið undir Eyjafjöllum. Vörubílstjórar hafi komið sér fyrir við Heimaland og á Skógum í nótt til að bíða af sér veðrið.

Slæmt veður hefur verið á Suðurlandi í nótt.  Við Reynisfjall fór vindhraðinn uppundir 50 sekúndumetra í hviðum. Bálhvasst var í Vík í Mýrdal og nágrenni í gærkvöld og  björgunarsveitarmenn þar voru kallaðir til aðstoðar nokkrum sinnum.

Búist er við stormi víða sunnan- og vestantil í dag, en um landið norðvestanvert í kvöld og nótt.

Tengdar fréttir: