Eldgos líklega að hefjast

14.04.2010 - 03:55
Mynd með færslu
Allar líkur eru taldar á að gos sé hafið eða að hefjast undir Eyjafjallajökli. Fólk þarf að rýma heimili sín á öllum hættusvæðum í kring um Eyjafjallajökul.

Búið er að rýma hús undir Eyjafjöllum frá Markarfljóti í vestri og austur að Skógum. Verið er að senda boð til íbúa í Landeyjum og Fljótshlíð um að þeir skuli rýma heimili sín. Fólk er beðið að halda ró sinni en koma sér hið fyrsta í fjöldahjálparstöðvar, með helstu nauðsynjar, lyf og fatnað.  Ekki hefur orðið vart við vatnavexti í ám.

Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna, segir að hafin sé rýming á öllu hættusvæðinu í kringum jökulinn. Fyrr í nótt sagði hann að 20-30 mínútur myndu líða frá gosi undir Eyjafjallajökli og þar til vatn byrjaði að flæða niður í byggð undir jöklinum. Skjálftavirkni mældist suðvestan við toppgíginn og ef gos kæmi þar flæddi vatn til suðurs.

Í aðgerðastöð á Hellu hafa björgunasveitir, almannavarnir og sýslumaður komið sér fyrir. Kjartan Þorkelsson sýslumaður segir að skráningarstöð hafi verið opnuð á Hvolsvelli. Veginum við Hvolsvöll og Skóga hefur verið lokað.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir að ekki sé vitað fyrir víst að eldur sé kominn upp. Enginn gosmökkur hafi sést á radar en engar spurnir séu af vatnavöxtum. Þó bendi mælingar til að mjög líklegt sé að gosið sé að hefjast eða sé hafið. Þetta sé framhald af virkni á Fimmvörðuhálsi. Talið sé að gosið verði lítið.