Eldgos í Eyjafjallajökli

14.04.2010 - 09:03
Mynd með færslu
Eldgos hófst í Eyjafjalljökli í nótt. Enn hefur ekki sést til jarðeldsins en sigdæld hefur myndast við hábungu jökulsins og gosbólstrar stíga í tólf þúsund fet. Vatnsborð hefur hækkað í Markarfljóti. Búið er að rýma hættusvæðið í Rangárþingi.

Jarðvísindamenn í TF SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar sem er á flugi yfir Eyjafjallajökli, segja að stór sigdæld sé umhverfis gíginn upp á jöklinum. Þeir geta sér til um að dældin sé 1 km x 600 metrar og stækki ört. Á síðustu mínútum hafi orðið miklar breytingar. Rétt rúmlega níu töldu þeir gatið vera 200 metra. Ekki sést þó í eld eða sprungu, enda er skýjað. Flugvélin er búin tækjum sem sjá í gegnum ský. Þeir geta sér til að sprungan sé um 500 metrar. Það er gjóskufall til austurs og það nær að Fimmvörðuhálsi. Gosmökkurinn hefur hækkað og er kominn í 22 þúsund fet.

Staðfest er að það er jökulflóð beggja vegna Gígjökuls og það hækkar í lóninu framan við skriðjökulinn enda rennur meira í lónið en úr því og vatnið er dökkt. Samt sem áður er rennslið ekki orðið jafn mikið og það verður mest á vorin. Skyggni er mjög takmarkað á svæðinu.

Tilkynningar hafa komið frá tveimur farþegaflugvélum  Icelandair sem flugu um það bil 20 kílómetra suður af Eyjafjallajökli. Úr þeim sást greinilegur strókur yfir jöklinum.  Strókurinn stingur í stúf við ský á svæðinu. Hann er gráleitur og dekkri en önnur ský. Strókurinn berst í austurátt með vindi. 

Lögreglan á Hvolsvelli hefur lokað fyrir umferð um Suðurlandsveg austan við Hvolsvöll og við Skóga vegna gruns um eldgos í Eyjafjallajökli. Engum er hleypt þar í gegn nema með leyfi lögreglu.