ElBaradei varaforseti Egyptalands

09.07.2013 - 15:31
Mynd með færslu
Herforingjastjórnin í Egyptalandi hefur skipað nóbelsverðlaunahafann Móhammed ElBaradei varaforseta Egyptalands. Bræðralag múslima hafnar áætlun herforingjastjórnarinnar um kosningar og endurskoðun á stjórnarskrá.

Egypskir ríkisfjölmiðlar greindu frá því í dag að Adlí Mansúr, sem herstjórnin skipaði forseta Egyptalands fyrir skömmu, hafi skipað Hazem al-Beblaví forsætisráðherra og falið honum að mynda ríkisstjórn. Beblaví er hagfræðingur sem gegndi embætti fjármálaráðherra árið 2011.

Stjórnarandstöðuleiðtoginn og nóbelsverðlaunahafinn Mohammad ElBaradei, sem orðaður var við forsætisráðherrastólinn, verður þess í stað varaforseti. 

Stjórn Beblavís á að sitja fram til loka þessa árs, þegar halda á þingkosningar og forsetakosningar í framhaldi af þeim. Þá ætlar Mansúr að skipa nefnd sem endurskoða á stjórnarskrá Egyptalands, en hún var felld úr gildi þegar herinn tók völdin af fyrrverandi forseta, Múhammed Múrsí.