„Ekki kaupa bara allt sem ég segi“

16.02.2016 - 20:35
„Fólk gerir sér í rauninni ekki grein fyrir því hvað við bloggarar fáum mikið af drasli - fyrirgefðu, dóti eða vörum sent til þess að prófa...Snyrtivörur, fatnaður, gjafabréf bara name it, hárvörur mikið líka... það er bara allt frá sokkum uppí linsur í augun.“ Þetta segir Lína Birgitta Camilla, lífstílsbloggari, sem notar Youtube, Snapchat, Instagram og fleiri samfélagsmiðla til að koma efninu sínu á framfæri.

Kastljós fjallaði í kvöld um lífstílsbloggara og við hvað þeir glíma sem lifa nokkurs konar sjálfskipuðu frægðarlífi á samfélagsmiðlum.  Bloggarar og opinberar persónur fá sendar vörur í miklum mæli frá fyrirtækjum í þeirri von um að þær séu auglýstar fyrir augum þúsunda fylgjenda þeirra.

Í stórum bloggheimi ríkir mikil samkeppni um sem flesta fylgjendur, flottustu fötin, flottasta heimilið og flottasta líkamann. Þar ríkir einnig mikil útlitsdýrkun og í sumum tilvikum sjúkdómar henni tengdir, á borð við átraskanir.

Lína Birgitta Camilla er með tæplega 8500 fylgjendur á Instagram og litlu færri á Snapchat, svo fyrirtæki senda vörur til hennar í þeirri von að hún skrifi um þær. Kastljós kannaði dæmi um vöru sem hún fjallaði um í nóvember. Söluaukningin í nóvember og desember var yfir 50%.

Þórunn Ívarsdóttir, sem einnig er mjög vinsæll tískubloggari, með yfir 40.000 lesendur í mánuði, segir alla bloggara skylduga að merkja þær færslur sem eru kostaðar. Að sama skapi þurfi lesendurnir og fylgjendurnir líka að halda í sína gagnrýnu hugsun og ekki kaupa allt það sem hún mælir með, hugsunarlaust.

„Fullorðnir þroskaðir einstaklingar eiga auðvelt með að sía út hver er vitleysingur og hver ekki en ungar stelpur eiga erfiðara með það oft á tíðum og ég þarf að hugsa, það sem ég er að skrifa ég vil ekki gefa neinum rangar hugmyndir og þær taki eitthvað inná sig eða byrja að líða illa útaf einhverju af því þær eiga ekki eitthvað, aldrei.“

Það sé mikil ábyrgð að vera með svo stóran lesendahóp og hún sé meðvituð um það að í hópnum séu allt niður í 14 ára unglingsstúlkur.

„En ég skil mætavel að hjá sumum stúlkum breytist þetta í áráttu, hvað varðar útlitsdýrkun og fegurð og að vera í fínu formi. Ég finn til með þeim að þetta skuli þurfa að vera svona í samfélaginu. Ég held að allir megi taka það til sín, bæði lesendur, bloggarar og bara fyrirtæki, að hugsa svolítið hvað þeir eru að senda þarna út í kosmósið.“

 

Lína Birgitta sagði frá því fyrir skemmstu að hún hefði glímt við lotugræðgi, búlimíu, frá unglingsaldri.

 

„Þetta byrjaði út frá því að útlitsdýrkun og meðvitund um líkamann byrjar rosa mikið þegar þú ert á þessum kynþroskaaldri, 6.-7.-8 bekk. Þannig ég byrjaði á því til að fitta inn í þessa háu staðla sem eru búnir að vera frá því maður að var lítill. Þetta byrjaði þannig að ég var að kasta upp til að grennast, sem gerðist því miður, af því þá hélt ég áfram og fólk fór að hrósa mér fyrir að ég væri að grennast og hvað ég liti vel út. Hrósin voru mér lífið á þessum tíma af því andlegi styrkurinn var svo lítill, þannig þetta fékk mig til þess að halda áfram.“

 

 

Hún hefur nú leitað sér aðstoðar hjá Hvítabandinu.

Sigrún Daníelsdóttir, sálfræðingur og Valgerður Anna Jóhannsdóttir, aðjúnkt í blaða- og fréttamennsku ræddu hinar ýmsu hliðar samfélagsmiðlanna eftir umfjöllunina: Sjálfskipaða frægð, grátt svæði fjölmiðlunar og mikilvægi þess að foreldrar hafi hugmynd um hvað unglingarnir þeirra séu að bauka í símanum alla daga. 

 

 

Mynd með færslu
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós